Að teikna á útlensku

Markmið:

Að þjálfa orðaforða að efla samvinnu að auka hugmyndaflug.

Aldursmörk:

Frá 11 ára

Gögn:

Tafla og krít, skeiðklukka, miðar með fyrirmælum, ef til vill orðabækur.

Leiklýsing:

Nemendum er skipt í tvö lið. Kennarinn hefur búið til litla miða með fyrirmælum um það sem á að teikna. Það geta verið erlend nafnorð, lýsingarorð, sagnorð eða starfsheiti svo eitthvað sé nefnt. Einnig er tilvalið að nota þann orðaforða sem hefur verið í síðasta texta sem bekkurinn hefur lesið. Annað liðið velur einn úr sínum hópi til þess að fara upp að töflu og draga miða. Sá á síðan að teikna það sem stendur á miðanum og félagar hans eiga að giska á hvað það er og fá til þess ákveðinn tíma sem nemendur eru búnir að koma sér saman um áður. Nemendur þurfa einnig að koma sér saman um stigagjöf og ef liðinu tekst að giska á hvað það er sem verið er að teikna á töfluna fær það ákveðinn stigafjölda og hitt liðið fær síðan að spreyta sig. Athugið að á meðan verið er að teikna á töfluna er það bara annað liðið sem giskar, þ.e.a.s. liðið sem teiknarinn kemur úr. Hitt liðið fylgist með. Tilvalið er að skipa einn úr því liði tímavörð.

Útfærsla:

Í eldri bekkjunum er hægt að banna nemendum að tala á íslensku og leyfa þeim þá að hafa orðabók við höndina (þjálfar í notkun orðabóka). Þá er hægt að skipa einn úr hinu liðinu njósnara og senda hann yfir í liðið sem er að geta til þess að sjá til þess að farið sé eftir settum reglum og ef svo er ekki fær liðið þá einhver fyrirfram ákveðin refsistig.

Heimild:
Leikur númer: 30
Sendandi: Sunna Viðarsdóttir

Deila