Allir sem einn

Markmið:

Hreyfing, athygli og skarpskyggni, tilbreyting.

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

Engin.

Leiklýsing:

Þátttakendur mega helst ekki vera færri en sjö, en eftir því sem þeim fjölgar verður leikurinn erfiðari. Hentugast er að þátttakendur séu á bilinu frá tólf til tuttugu.

Þátttakendur raða sér í hring og einn er valinn til að “ver’ann”. Sá sem “er’ann” fer fram eða svo langt frá að hann heyri ekki það sem hinir segja og á meðan ákveða þeir hver eigi að stjórna. Sá sem “er’ann” kemur og tekur sér stöðu í miðjum hringnum. Stjórnandi hringsins byrjar að hreyfa sig á einhvern hátt sem hann velur sjálfur og hinir í hópnum fylgja á eftir. Hann getur t.d. sveiflað annarri hendi. Þegar stjórnandinn sér sér fært að skipta um hreyfingu án þess að sá sem er í miðjunni taki eftir, gerir hann það og hinir í hringnum herma eftir. Stjórnandinn getur t.d. sveiflað hinni hendinni. Leikurinn er fólginn í að sá sem “er’ann” átti sig á hver það er sem stjórnar hreyfingunum. Það er á valdi þátttakenda hversu margar tilraunir hann fær eða hvort þær eru ótakmarkaðar. Þegar sá sem “er’ann” hefur áttað sig á hver stjórnandinn er, fer stjórnandinn úr hringnum og hinir velja nýjan stjórnanda. Sá sem síðast var stjórnandi “er’ann” í næsta leik.

Útfærsla:
Heimild:
Leikur númer: 10
Sendandi: Auður Sigurðardóttir, Björk Pálmadóttir og Ragnheiður Matthíasdóttir

Deila