Ávaxtasalat

Markmið:

Að nemendur þekki algengustu ávexti og grænmetistegundir. Að þeir geri sér grein fyrir helstu næringarefnum sem er að finna í ávöxtum og grænmeti og hollustugildi þeirra. Að fá nemendur til þess að borða ávexti og grænmeti.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Nokkrar tegundir af ávöxtum og grænmeti eru látnar liggja á borði: Epli, appelsína, pera, sítróna, banani, greipaldin, plóma, ferskja, apríkósa, kíví, vínber, jarðarber, kartafla, gulrófa, gulrót, næpa, salat, hvítkál, tómatur, gúrka, paprika, laukur, púrrulaukur.

Blað sem hver og einn nemandi skráir á hvað hann þekkir.

Blað sem hópurinn skráir á sameiginlegar niðurstöður (blaðið gæti t.d. litið út eins og sést hér síðar).

Leiklýsing:

Í upphafi skráir hver og einn nemandi það sem hann þekkir af þessum ávöxtum og grænmeti (ef nemendur eru mjög ungir er e.t.v. betra að hafa blað þar sem búið er að skrá niður heitin á ávöxtunum og nemendur krossa við heiti þess sem þeir þekkja). Þegar hver og einn hefur reynt eftir bestu getu er skipt í hópa (þrír til fjórir saman). Hóparnir fá nokkrar mínútur til að koma sér saman um endanlega niðurstöðu. Hóparnir eiga svo að flokka í tvennt, í ávexti og ber annars vegar og grænmeti hins vegar. Einnig eiga þeir að nefna a.m.k. tvö næringarefni sem er að finna í hvorum flokki. Hóparnir skila niðurstöðum til kennara sem fer yfir og finnur sigurvegara meðan nemendur útbúa eigið salat til að borða. Stigafjöldinn í pottinum fer eftir því hversu margar tegundir eru notaðar. Hópurinn fær eitt stig fyrir hvert rétt svar. Fimm stig eru gefin fyrir að geta flokkað rétt í tvennt (ávextir og ber, grænmeti), eitt stig er dregið frá fyrir hvert atriði sem er vitlaust flokkað. Tvö stig eru fyrir að geta nefnt næringarefnin tvö.

Tilvalið er að leyfa hópunum að velja í sameiningu þrjár til fjórar tegundir úr því sem í boði er á borðinu og búa til eigið salat úr því sem valið hefur verið. Í lokin á svo að borða þetta og greina frá niðurstöðum, spjalla um hollustuna og hvað bragðast best.

Útfærsla:

Hægt er að nota myndir í stað ávaxtanna og grænmetisins. Ef það er gert er auðvitað ekki hægt að leyfa nemendum að smakka á eftir. Allt fer þetta auðvitað eftir aðstæðum, t.d. hversu mikið er til í kæliskápnum. Stigatalningin er líka matsatriði en það myndi eflaust skapa áhuga ef einhver verðlaun væru í boði.

Ef verið er að fjalla um ávexti og grænmeti er einnig skemmtilegt að gera það á annan hátt en nú var sagt og er sú útfærsla heppileg fyrir eldri bekki. Mark- miðið með leiknum breytist auðvitað líka. Leikurinn gengur þá út á það að hver og einn þátttakandi velur sér nafn á einhverjum ávexti eða grænmeti. Allir sitja í hring og læra þau nöfn sem hinir völdu sér. Ég hef valið að vera banani og byrja leikinn með því að segja: “Banani, sítróna.” Um leið klappa allir saman höndum. Sítrónan verður þá að taka við mínum boðum og halda áfram, en þá verður hún að segja sitt nafn fyrst og bæta síðan öðru við, t.d. gulrót. Þá tekur gulrótin við og þannig koll af kolli. Ef einhver mismælir sig, segir vitlaust orð eða fer að hlæja svo sést í tennurnar er viðkomandi úr leik. Ekki má heldur halda fyrir munninn. Sá vinnur sem er einn eftir*.

Dæmi um blað sem hópurinn gæti fyllt út saman:

Nöfn:
Hvaða ávexti og ber þekktuð þið?

Hvaða grænmeti þekktuð þið?

Nefnið a.m.k. tvö næringarefni sem er að finna í grænmeti?

Nefnið a.m.k. tvö næringarefni í ávöxtum og berjum?

Heimild:
Leikur númer: 33
Sendandi: Sigurjóna Jónsdóttir

Deila