Baunapokakeppni

Markmið:

Efla samvinnu og æfa fingrafimi. Ásamt því að styrkja bak með beygju og réttu og teygja á brjóstvöðvum.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Baunapokar, borð og stólar.

Leiklýsing:

Leikmönnum er skipt í fimm til átta manna hópa og stendur hver hópur í einfaldri röð. Nokkurt bil er á milli og standa þeir með bil á milli fótanna. Sá sem er fremstur heldur á baunapoka.

Leikurinn fer þannig fram að þegar stjórnandi gefur merki, réttir fremsti maður baunapokann milli fóta sér aftur til næsta manns. Hann réttir pokann aftur yfir höfuð sér til þess sem stendur fyrir aftan hann og þannig alltaf til skiptis undir eða yfir til aftasta manns. Leikmenn verða að hafa báðar hendur á pokanum. Þegar aftasti maður fær pokann segir hann snú og öll röðin snýst í hálfhring þannig að aftasti maður verður fremstur í röðinni. Hann réttir nú pokann öfugt við það sem hann fékk hann og endurtekur leikinn þar til sá sem hóf leikinn fær pokann aftur. Þá segir hann snú og lyftir pokanum upp. Sú röð vinnur sem er fyrst að snúa og lyfta poka.

Hafa má fleiri umferðir og er það þá ákveðið í upphafi leiks hversu oft pokinn er látinn ganga.

Útfærsla:

Borðum og stólum er raðað í röð og leikmenn sitja við borðin. Pokinn er nú eingöngu látinn ganga (með báðum höndum) yfir höfuð. Aftasti maður segir snú þegar hann fær pokann og allir leikmenn setjast klofvega öfugt á stólana. Pokinn er látinn ganga til baka yfir höfuð þar til sá sem hóf leikinn fær pokann aftur. Þá segir hann snú og allir snúa aftur rétt í stólunum. Hann lyftir þá pokanum upp. Sú röð vinnur sem er fyrst að snúa og lyfta poka.

Heimild:

Þórey Guðmundsdóttir (1987). Innileikir – hreyfileikir. Reykjavík: Höfundur gaf út.

Leikur númer: 7
Sendandi: Tinna Rún Eiríksdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og Skúli Þórisson

Deila