Bim, bam, bim, bam

Markmið:

Söngur. Leikræn tjáning. Skemmtun.

Aldursmörk:

Frá 5 ára

Gögn:

Engin.

Leiklýsing:

Hópurinn stendur upp við vegg, nema einn sem snýr á móti hinum og stendur í dálítilli fjarlægð frá hópnum. Sá sem „er hann“ (segjum að það sé hann Þórir) byrjar og syngur;

Þórir:„Bim-bam-bim-bam, bimbi-rimbi-rim-bam“. Um leið gengur hann fram í fyrri hluta vísunnar en bakkar til baka í þeim síðari.

Þá svarar hópurinn (og gengur fram og aftur eins og áður) „Hver er að berja, bimbi-rimbi-rim-bam“.

Þórir: „Það er hann Þórir, bimbi-rimbi-rim-bam“.

Hópur: „Hvern vill hann finna, bimbi-rimbi-rim-bam“.

Þórir: „Elskulegu Stínu sína, bimbi-rimbi-rim-bam“ (og nú nefnir Þórir þann sem hann vill fá til sín, ath. það getur verið hvort sem er strákur eða stelpa).

Hópur: „Hvað vill hann með hana, bimbi-rimbi-rim-bam“.

Þórir: „Láta hana vaska upp, bimbi-rimbi-rim-bam“ (auðvitað ákveðið þið sjálf hvað viðkomandi á að gera).

Hópur: „Hvað fær hún að launum, bimbi-rimbi-rim-bam“.

Þórir: „Tíu börn í bala og átján rottuhala“ (muna, vera sniðugur í svari en ekki leiðinlegur).

Hópur: „Fari hún þá með gleði, bimbi-rimbi-rim-bam“ (eða skít og skömm, eftir því hvað við á).

Og nú fer Stína yfir til Þóris og þau koma sér saman um hvern á að biðja um næst o.s.frv.

 

Hlusta á lagið:

 

Útfærsla:

Afbrigði af þessum leik er „Hæsingja-læsingja-lon-don-don“. Þá byrjar sá sem er hann á að syngja:

„Mætti´ég biðja’ um Stínu, Hæsingja-læsingja-lon-don-don“.

Hópurinn svarar:„Hvað vilt þú með Stínu, Hæsingja-læsingja-lon-don-don“.

Og síðan er restin af leiknum eins og „Bim-bam bim-bam“, nema að þið segið alltaf; „Hæsingja-læsingja-lon-don-don“ á hverri setningu. Lagið er alveg eins.

Heimild:
Leikur númer: 198
Sendandi: Ólafía Margrét Ólafsdóttir

Deila