Blindi indíánahöfðinginn

Markmið:

Þjálfa heyrn og eftirtekt.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Trefill eða eitthvað til að binda fyrir augun. Einhver hlutur, t.d. úr eða einhver annar smáhlutur.

Leiklýsing:

Kennari velur einn nemanda úr hópnum og bindur fyrir augu hans. Er sá indíánahöfðingi. Nemendur sitja allir í hring. Indíánahöfðinginn situr á gólfinu örlítið frá hinum með krosslagða fætur (í stellingu indíánahöfðingja). Fyrir framan hann er fjársjóður hans sem hann vill verja. Leikurinn gengur út á það að hinir nemendurnir eiga að reyna að stela fjársjóði hans.

Kennari bendir á einhvern úr hópnum sem á að reyna að skríða eins hljóðlega og hann getur og ná í hlutinn. Blindi indíáninn á þá að reyna að heyra hvaðan hljóðið kemur og benda í áttina að því. Geti hann bent í rétta átt fær hann að vera indíánahöfðinginn áfram og heldur fjársjóði sínum. Nái einhver nemandinn að ræna fjársjóðinum fær sá nemandi að vera höfðingi.

Útfærsla:

Þennan leik er einnig hægt að leika á annan hátt en með sama markmiði. Þá standa nemendur saman í hring og einn nemandi er með bundið fyrir augun. Kennari tekur síðu úr dagblaði og krumpar hana rækilega saman. Nemendurnir eiga síðan að láta hana ganga með því að halda í eitt horn blaðsins og er mikilvægt að láta það ganga sem hljóðlegast. Blindinginn á að hlusta og reyna að benda á hvar blaðið er. Geti hann það losnar hann við að vera blindinginn og sá sem hélt á blaðinu síðast á „að ver‘ann“.

Heimild:
Leikur númer: 86
Sendandi: Hafdís Hilmarsdóttir

Deila