Búmm eða Pling

Markmið:

Þjálfa nemendur í margföldun.

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Engin.

Leiklýsing:

Valin er margföldunartafla, til dæmis 6 sinnum taflan. Einn byrjar og segir töluna einn, næsti segir tveir, þarnæsti þrír o.s.frv. Þegar talan 6 eða margfeldi hennar kemur fyrir má ekki segja töluna heldur BÚMM. Einnig má ekki segja tölur sem talan 6 er í þó svo talan sé ekki margfeldi af sex. T.d. má ekki segja töluna 26 þegar 6 sinnum taflan er valin. Ef einhver gerir villu er hann úr og hinir byrja upp á nýtt. Svona gengur leikurinn þar til einn er eftir og er hann þá sigurvegarinn.

Dæmi. 1, 2, 3, 4, 5, BÚMM 7, 8, 9, 10, 11, BÚMM 13, 14, 15 BÚMM 17…

Útfærsla:

Til eru ýmis afbrigði af þessum leik. Eitt afbrigðið heitir “Pling” og er svona:

Nemendur sitja í sætum sínum. Valin er margföldunartafla, t.d. 2 sinnum taflan. Nemendur mega þá ekki nefna neina tölu sem 2 gengur upp í (2, 4, 6, 8, 10, 12, 14, 16, 18 o.s.frv.) en í staðinn fyrir að nefna þessar tölur segja þeir “pling”. Sá nemandi sem nefnir tölu sem 2 gengur upp í er úr leik og sest upp á borð. Hinir halda áfram þar til einn er eftir og er hann sigurvegari.

Kennari ræður vitaskuld hvernig hann lætur leikinn ganga. Fara má eftir röð nemenda eins og þeir sitja eða af handahófi. Hægt er að nota allar margföldunartöflurnar en miða verður við getu hvers hóps fyrir sig.

Leikinn er prýðilegt að nota í tungumálakennslu þegar verið er að kenna tölurnar.

Heimild:

Lært af nemendum í Grunnskóla Sandgerðis veturinn 1990-1991.

Leikur númer: 119
Sendandi: Sigurvin Bergþór Magnússon

Deila