Dýraleikur

Markmið:

Fræða um dýrin, tilbreyting og skemmtun.

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

Púði, útvarp eða annað tæki til að leika tónlist, miðar með spurningum um dýrin.

Leiklýsing:

Kennari (eða nemendur, t.d. í hópvinnu) semur (semja) spurningar um dýr og lætur þær í poka. Dæmi: Svín. Hvað heita kvendýrið, karldýrið og afkvæmið? Einnig getur staðið á miðanum að viðkomandi eigi að leika eitthvert atferli dýrsins eða hljóð.

Nemendur sitja í hring á gólfinu og láta púða (eða bolta) ganga á milli sín. Kennarinn leikur tónlist í nokkrar sekúndur. Þegar hann stöðvar tónlistina er einn nemandi væntanlega með púðann. Sá nemandi á þá að draga einn miða upp úr pokanum og svara spurningunni sem á honum stendur.

Útfærsla:

Hægt er að skipta bekknum í t.d. tvö lið. Þá sitja nemendur í tveimur beinum röðum hvor á móti annarri. Púðinn gengur á milli liðanna. Það lið sem er með púðann þegar tónlistin er stöðvuð dregur þá miða. Hafa má þær reglur að á miðanum standi einungis nafn á einu dýri. Liðið á þá að leika það dýr og það umhverfi sem það lifir í. Hitt liðið á að giska á hvaða dýr er átt við. Liðið sem gat upp á réttu dýri fær stig eða missir stig ef það nefnir ekki rétt dýr. Stigin eru skráð og það lið vinnur sem hefur fleiri stig.

Einnig er hægt að leyfa liðunum sjálfum að velja sér dýr og leika það fyrir hitt liðið.

Heimild:
Leikur númer: 293
Sendandi: Þóra Þórisdóttir

Deila