Dýranafnaleikur

Markmið:

Hreyfing, tilbreyting, athygli og skarpskyggni, skapa góðan félagsanda.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Sjá leiklýsingu

Leiklýsing:

Völlurinn sem leikið er á er ferkantaður ca. 25-30 m langur með miðlínu, en getur verið eins breiður og þarf (fer eftir fjölda þátttakenda).

Fjöldi þátttakenda getur verið ótakmarkaður en meira gaman að hafa marga hópa. Þátttakendur para sig saman og stilla sér upp andspænis hvor öðrum, sitt hvoru megin við miðlínuna. Öðru megin við línuna verður til eitt lið og annað hinu megin. Liðin fara til baka á sína endalínu og annað liðið byrjar að velja sér dýr. Einn nemandi er útnefndur fyrirliði af stjórnanda. Fyrirliðinn fer á endann á röðinni og ákveður eitthvert dýr. Fyrirliðinn hleypur síðan meðfram hópnum og segir hvert dýrið er. Til að hitt liðið heyri ekki þá kalla allir veeeiiiiii um leið og þeir hafa heyrt hvert dýr hópsins er og búa til bylgju með höndunum. Að þessu loknu takast allir í hendur og labba yfir til hins hópsins. Þar stilla þeir sér ca. 1m frá hinu liðinu og byrja að leika dýrið án hljóða. Allir í hinu liðinu giska, hver í kapp við annan, og þegar rétt ágiskun kemur hleypur liðið til baka en hinir eiga að reyna að klukka sem flesta. Þeir sem eru klukkaðir færast yfir í hitt liðið.

Hitt liðið fær svo að velja dýr næst. Leiknum er lokið þegar allir eru komnir í annað liðið og þar með eru allir sigurvegarar!

Útfærsla:

Þegar hópurinn labbar yfir til hins er hægt að syngja eitthvað á leiðinni, t.d. „hér komum við.” Sjá einnig leikinn Skordýrin og vindurinn í flokknum Hreyfileikir og æfingar og Dýraleik í flokknum Ýmsir hópaleikir.

Heimild:

Leikinn lærði sendandi á námskeiðinu Viltu læra nýja leiki, sem haldið í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ haustið 2006. Kennari Britt Reymann Jepsen.

Leikur númer: 41
Sendandi: Arnsteinn Ingi Jóhannesson

Deila