Dýrasamstæða

Markmið:

Æfa minni og viðbragð.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Húllahringir, dýraspil og blað með myndum af dýrum, Sjá dæmi hér.

Leiklýsing:

Nemendum er skipt í fjóra hópa og fær hver og einn hópur ákveðið horn á íþróttasalnum. Í hverju horni er blað (t.d. A4) með myndum af dýrum af ákveðinni tegund. Enginn hópur er með eins blað. Í miðjum salnum er húllahringur og í  honum fullt af litlum spjöldum með myndum af dýrum (ein mynd á hverju spjaldi). Myndirnar eru á hvolfi. Nemendurnir eiga að hlaupa einn í einu úr hverju horni og veiða sér spjald úr húllahringnum – aðeins eitt í hvert skipti. Tvennt getur gerst:

a) Að nemandinn veiðir spjald sem er ekki hans. Þá hleypur sá nemandi með spjaldið á sína heimastöð og réttir næsta leikmanni sem skilar spjaldinu aftur í húllahringinn og dregur nýtt.
b) Að nemandinn dragi rétt spjald, þá hleypur hann með sitt spjald og setur það ofan á  blaðið sem er á heimastöðinni.

Svona gengur leikurinn þangað til eitt af fjórum liðunum hefur náð öllum sínum spjöldum.

Svo nemendurnir viti hvaða spjöld þeir eiga eru myndirnar á A4 blaðinu á heimastöðinni þeirra. Í þessum leik ákváðum við að skipta spjöldunum í dýrategundir þar sem eitt lið voru hundar, annað var kisur, þriðja var kanínur og fjórða fuglar.

Útfærsla:

Auðvelt er að tengja þennan leik við námsefni, t.d. orðflokka.

Heimild:

Leikurinn er búinn til af sendendum.

Leikur númer: 417
Sendandi: Birgitta Lind Scheving, Rannveig Harpa Jónþórsdóttir, Sigrún Dís Bjarnadóttir, Svandís Helga Hjartardóttir og Þórhildur Vala Kjartansdóttir.

Deila