Fréttadans

Markmið:

Nemendur geri sér grein fyrir hreyfingum sínum, hreyfifæni, nákvæmni, skemmtun.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Opnur / arkir úr dagblöðum, tónlist.

Leiklýsing:

Hver nemandi fær eina örk úr dagblaði. Nemendur leggja örkina sína á gólfið og taka sér stöðu ofan á blaðinu. Síðan er tónlist spiluð í stutta stund og nemendur eiga að dansa á blaðinu á meðan. Þeir verða að gæta þess að stíga ekki út fyrir það. Sá sem stígur út fyrir blaðið er dottinn úr leik. Þegar tónlistin stoppar á hver nemandi að taka blaðið sitt og brjóta það saman um helming og leggja það síðan aftur á gólfið og koma sér fyrir ofan á því að nýju. Nemendur fá 10 sekúndur til að brjóta blaðið saman og koma sér fyrir. Síðan hefst tónlistin aftur og sami háttur er hafður á þar til blaðið er orðið svo lítið að í raun er ómögulegt að dansa eða halda sér á því. Sá eða þeir sem síðastir verða eftir vinna leikinn.

Útfærsla:

Það gerir leikinn skemmtilegri ef nemendur eru hvattir til að dansa frumlegan dans eða hreyfa sig sérkennilega. Hægt er að stytta eða lengja tímann sem nemendur fá til að brjóta saman blaðið.

Heimild:

Heimild ókunn.

Leikur númer: 275
Sendandi: Una Björk Unnarsdóttir

Deila