Fuglaleikur

Markmið:

Festa fuglanöfn í minni. Hraði og snerpa.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Rúmgott svæði inni eða afmarkað svæði úti.

Leiklýsing:

Þátttakendur eru 5-10. Hlaupið er umhverfis eitthvað hæfilega stórt, t.d. stóra dýnu, bíl eða borð.

Í upphafi koma þátttakendur sér saman um hvort og þá hvaða takmarkanir gilda skuli um nafngiftir fuglanna. Dæmi: Ákveðið er að nota aðeins nöfn sundfugla, næst spörfugla o.s.frv.

Þá er einn kosinn eða tilnefndur til að vera smali og fer sá frá meðan hinir skíra. Smalinn kemur inn og kallar upp fuglanöfn, eitt eftir annað. Geti hann upp á nafni einhvers fuglanna hleypur sá af stað umhverfis borðið, bílinn (eða það sem um er að ræða hverju sinni) en smalinn reynir að ná honum. Ef sá er ekki röskur að hlaupa er nauðsynlegt að hafa tímatakmörk. Smalinn heldur svona áfram að leita uppi nöfn fuglanna og hann má fá aðstoð við hlaupin hjá þeim sem búið er að ná.

Útfærsla:

Fuglaleikurinn getur hæglega breyst í dýraleik, fiskaleik, ártöl úr sögunni eða hvað sem er.

Heimild:

Þennan leik fórum við bræður gjarnan í heima þegar ekki var hægt að komast út. Reyndi þá mjög á stofuborðið því við hlupum umhverfis það. Síðar kenndi ég nemendum mínum þennan leik.

Leikur númer: 124
Sendandi: Ólafur Eggertsson

Deila