Fuglar, húsdýr, fiskar (leikur með dýrategundir)

Markmið:

Reyna á minni og þekkingu nemenda á dýrategundum.

Aldursmörk:

Frá 5 ára

Gögn:

Bolti eða eitthvað til að henda á milli.

Leiklýsing:

Nemendur sitja í hring á gólfinu. Einn nemandi er’ann og hendir bolta til einhvers í hringnum og segir um leið t.d. fugl. Sá sem grípur boltann á að nefna fuglategund sem ekki hefur verið nefnd. Sá sem ekki getur nefnt nýtt nafn (tegund) fer í miðjuna. Sá sem er í miðjunni hefur alltaf um þrennt að velja, þ.e. að segja fugl, húsdýr eða fiskur. Það gerir nemendum erfiðara fyrir að muna hvað var áður komið af tegundum. Nemendur þurfa að skipuleggja minnisatriðin vel og flokka í þrennt, þ.e. hvaða húsdýr er búið að nefna, hvaða fugla er búið að nefna og hvaða fiska er búið að nefna.

Útfærsla:

Einnig má láta nemendur fá fyrirmæli um að biðja um ýmislegt annað. Þetta þurfa ekki endilega að vera dýrategundir. Í raun má nota allt það sem kennurum dettur í hug og tengist því viðfangsefni sem hentar hverju sinni. Í landafræði mætti t.d. nota lönd í þremur mismunandi heimsálfum o.s.frv.

Heimild:

Cornell, Joseph Bharat. 1989 (1979). Sharing Nature With Children. Watford: Exley Publications.

Leikur númer: 125
Sendandi: Ingigerður Sæmundsdóttir

Deila