Handaklapp

Markmið:

Auka einbeitningu og samhæfingu handa. Hópefli.

Aldursmörk:

Frá 4 ára

Gögn:

Engin

Leiklýsing:

Þátttakendur sitja eða liggja (krjúpa) í hring og leggja lófana flata á gólfið / borðið / hnén. Síðan flytur hver þátttakandi vinstri hönd sína yfir hægri hönd þess sem situr honum á vinstri hönd. Einn úr hópnum byrjar að klappa lófanum á gólfið einu sinni. Klappið á að ganga réttsælis og verða allir að einbeita sér að því að fylgjast með hvenær er komið að þeirra hönd. Það getur ruglað þátttakendur í ríminu að hendur þeirra eru ekki hlið við hlið. Ef klappað er tvisvar snýst hringurinn við. Þegar einhver hönd klappar á vitlausum tíma eða gleymir að klappa er hún úr. Þá á þátttakandi að setja höndina aftur fyrir bak en hin höndin hans er ennþá með í leiknum. Þegar þátttakandi hefur misst báðar hendur er hann úr leik. Að lokum stendur svo einn þátttakandi uppi sem sigurvegari. Leikurinn krefst þess að það sé ró og einbeiting í hópnum.

Útfærsla:

Þeim mun eldri sem nemendur eru því strangari reglur er hægt að setja.

Heimild:

Þeir sem sendu þennan leik muna ekki hver kenndi!

Leikur númer: 48
Sendandi: Erna Björk Einarsdóttir, Freyja Finnsdóttir, Jens Karl Ísfjörð

Deila