Hjarta – spaði – tígull – lauf

Markmið:

Hópefli, hópstyrking, að hafa gaman.

Aldursmörk:

Frá 5 ára

Gögn:

Einn spilastokkur og stólar (jafnmargir þátttakendum).

Leiklýsing:

Stólum er raðað í hring og stjórnandinn lætur alla þátttakendur draga spil úr spilastokknum og segir þeim að þeir þurfi að muna hvort þeir drógu hjarta, spaða, tígul eða lauf. Því næst safnar hann saman öllum spilunum og biður þátttakendur að setjast í sæti sín. Þegar allir eru komnir í sín sæti dregur stjórnandinn spil úr spilastokknum og kallar t.d. hjarta ef hann dró hjarta. Þá eiga allir sem drógu hjarta að færa sig um eitt sæti til vinstri en hinir sitja kyrrir. Þeir sem sitja kyrrir geta þá lent í að einhver setjist ofan á þá. Stjórnandinn dregur svo annað spil úr stokknum og kallar það upp, t.d. tígull og þá eiga allir tíglarnir að færa sig um eitt sæti til vinstri. Ef einhver situr ofan á tígli getur tígullinn ekki fært sig.

Leikurinn heldur svona áfram þar til stjórnandinn ákveður að hætta. Það geta oft myndast töluverðar raðir af þátttakendum í sumum sætunum. Það eru ekki mikil læti í þessum leik en samt sem áður fara töluverð samskipti fram á milli þátttakenda.

Útfærsla:

Hægt er að sleppa spilastokknum og láta þátttakendur segja eitthvað sem á við um þá eins og „Ég hef átt heima í Kópavogi“eða „Ég elska sushi“ og þá koma þeir sem þetta ákveðna atriði á einnig við um og setjast ofan á þann sem sagði staðreyndina. Hann losnar síðan ekki við þá fyrr en einhver önnur staðreynd á við um þá.

 

 

Heimild:

Uppruni óþekktur. Einn sendenda lærði þennan leik af leiðbeinanda sínum í kennaranáminu.

Leikur númer: 369
Sendandi: Harpa Bergþórsdóttir, Hildur Hallkelsdóttir, Sif Ólafsdóttir og Sólrún Ágústsdóttir.

Deila