Hlutverkaleikur tengdur stærðfræði og fleiri greinum

Markmið:

Efla verðskyn, útreikningar, áætlanagerð.

Aldursmörk:

Frá 0 ára

Gögn:

Ýmis upplýsingaspjöld (sjá lýsingu).

Leiklýsing:

Til þess að leikurinn verði raunverulegur þurfa að liggja fyrir upplýsingar um verð á sem flestum nauðsynjavörum, bæði matvöru og fatnaði. Ef hægt er að koma því við er best að afla þessara upplýsinga með því að börnin fari sjálf á vettvang (í nálægar verslanir) með tilbúna lista og geri verðkönnun. Þegar þau koma til baka með upplýsingarnar geta þau annaðhvort reiknað út meðalverð viðkomandi vöru og skrifað á spjald, sem hengt er upp á vegg í stofunni, eða útbúið spjöld fyrir hverja verslun fyrir sig. Einnig er gott að fá upplýsingar frá heimilunum um áætlaða neyslu nokkurra vörutegunda á hvern heimilismann í einn mánuð. Að þessum upplýsingum fengnum draga þátttakendur hlutverkaspjöld. Þar kemur fram hver staða þeirra í þjóðfélaginu er og hve há laun þeirra eru, að frádregnum sköttum. Á öðru spjaldi, sem hver og einn dregur, er úthlutað heimilisfangi ásamt íbúðarstærð og mánaðarleigu. Sumir búa einir en aðrir leigja með einum eða fleiri af félögum sínum, tekjurnar eru misháar og leigan sömuleiðis.

Þegar höfundur prófaði leikinn í fyrsta skipti með börnum í Setbergsskóla var aðeins ein vika til umráða, þar af fór fyrsti stærðfræðitíminn í verðkönnunina þannig að þeir fjórir tímar sem eftir voru táknuðu eina viku hver. Það væri áhugavert að sjá hvernig til tækist ef þessi leikur væri látinn ganga heilan vetur, með því að ætla honum einn tíma á viku.

Þriðji spjaldaflokkurinn er kallaður Happa- og glappaspjöld. Hver nemandi dregur eitt slíkt spjald í hverjum tíma og verður þá ýmist fyrir óvæntum útgjöldum eða hagurinn vænkast með einhvers konar ávinningi. Stundum er eitthvert freistandi tilboð á spjaldinu og verður viðkomandi þá að reikna út hvort hann hefur efni á að taka því. Stundum verður sá sem spjaldið dregur að gera upp við samvisku sína hvort hann þiggur það sem í boði er.

Hver þátttakandi í þessum leik færir tekjur og gjöld samviskusamlega á blað og fylgist grannt með eyðslunni. Tilgangurinn er að láta tekjurnar endast út mánuðinn og helst að eiga afgang. Þennan leik er auðvelt að þróa áfram með eldri nemendum þannig að með tímanum færi þeir eigin tekjur og gjöld á blað í stað ímyndaðra upphæða. Þar með verður það eðlilegt hverjum og einum að halda heimilisbókhald og þegar þessir nemendur byrja að læra bókfærslu ætti það að verða þeim auðvelt. Einnig er hægt að einfalda þennan leik fyrir yngri börn og vinna þá með hann sem einhvers konar búðarleik.

Dæmi um hlutverkaspjöld:

– Þú ert iðnaðarmaður; laun þín eru kr. 125.000 á mánuði.
– Þú starfar við fiskverkun; launin eru kr. 65.000 á mánuði.
– Þú vinnur hálfan daginn í verslun og færð kr. 30.000 á mánuði.
– Þú ert á örorkubótum sem nema kr. 48.000 á mánuði.
– Þú ert tannlæknir og færð kr. 350.000 á mánuði í laun.
– Þú vinnur á leikskóla; laun þín eru kr. 53.000 á mánuði.

Dæmi um heimilisspjöld:

– Lækjarbakki 21, tveggja herbergja íbúð. Leigan er kr. 32.000 á mánuði.
– Vatnsból 8, fimm herbergja íbúð, þrír í heimili. Leigan er kr. 54.000 á mánuði.
– Flóðbylgja 13, þriggja herbergja íbúð. Leigan er kr. 35.000 á mánuði, þú mátt leita þér að meðleigjanda.

Dæmi um happa- glappasjöld:

– Þú brýtur gleraugun þín, viðgerð kostar kr. 5.000, en ný gleraugu kosta kr. 20.000.
– Þér býðst að vinna aukavinnu í þrjár vikur og færð að launum kr. 80.000 en af því verður þú að borga kr. 32.000 í skatt.
– Þú finnur peningaveski á götunni með 75.000 krónum í peningum. Þú skilar veskinu á næstu lögreglustöð. Í ljós kemur að gömul kona á veskið og í því er aleiga hennar, hún vill borga þér 10.000 krónur í fundarlaun. Þiggurðu þau?

Útfærsla:
Heimild:
Leikur númer: 128
Sendandi: Edda Ársælsdóttir

Deila