Hreyfiþroskaæfingar

Markmið:

Þjálfa hreyfingar, tilbreyting.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Band, sippuband, blýantar, stólar

Leiklýsing:

Nemendur vinna tveir og tveir saman. Nóg pláss verður að vera í stofunni til að gera æfingarnar. Miðað er við að nemendur vinni í 30 sek í einu, annar hvílir og telur hvað hinn gerir oft og skráir niður á blað.

Æfingar:

Jafnvægi – styrkur – þol. Stíga upp á stól og halda blýanti fyrir aftan bak.

Jafnvægi – samhæfing fóta. Standa í gangstöðu á gólfinu með blýant milli fóta og hoppa á víxl fram og aftur yfir blýantinn.

Stöðujafnvægi – samhæfing handa. Standa á tám og halda blýanti í hægri hendi og rétta hann yfir í vinstri hendi aftur fyrir bak viðstöðulaust.

Jafnvægi – samhæfing. Hoppa jafnfætis til hliðar yfir blýant með hendur á mjöðmum.

Jafnvægi – samhæfing handa og fóta – styrkur – þol. Nemendur sippa eins oft og þeir geta.

Jafnvægi – samhæfing handa og fóta. Ganga á kaðli vissa vegalengd. Varast að detta af kaðlinum.

Jafnvægi – samhæfing handa og fóta – styrkur – þol. Fjórum stólum raðað upp. Skríða skal undir fyrsta stól, stíga upp á annan stól, skríða undir þann þriðja og stíga upp á fjórða stól.

Jafnvægi – styrkur. Standa á öðrum fæti.

Jafnvægi – styrkur – þol. Hoppa á öðrum fæti yfir blýant sem liggur á gólfinu.

Styrkur – þol. Hjólbörur. Annar nemandinn heldur undir læri hins nemandans og stendur á milli fóta hans, hinn gengur á höndum fram og til baka.

Ekki þarf að láta nemendur gera allar þessar æfingar í einu. Gott er að miða við 4 – 5 æfingar. Upplagt er að láta nemendur gera þessar æfingar þegar þeir eru þreyttir á bóklegu námi og þurfa tilbreytingu.

Útfærsla:
Heimild:

Byggt á hugmyndum frá Antoni Bjarnasyni.

Leikur númer: 49
Sendandi: Sigurvin Bergþór Magnússon

Deila