Hundar og kettir

Markmið:

Ræðst af verkefnum. Fá nemendur til að beita athyglisgáfu og þekkingu sinni. Fjölbreytni í námi, skemmtun.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Kennari semur fullyrðingar, réttar og rangar, sem henta námsefni hverju sinni.

Leiklýsing:

Nemendum er skipt í tvo hópa, hunda og ketti. Hópunum er raðað andspænis hvorum öðrum með u.þ.b. eins metra bil á milli. Útveggir bak við hvorn hóp eru marklínur, ef leikurinn er leikinn inni, annars er hentugt að fara út með nemendur og afmarka endalínur u.þ.b. 8 m aftan við hvorn hóp.

Kennari/stjórnandi fullyrðir eitthvað og ef fullyrðingin er sönn eiga hundarnir að elta kettina. Markmiðið er að ná köttunum áður en þeir komast yfir á marklínuna. Ef fullyrðingin er röng eiga kettirnir að elta hundana. Þeir nemendur sem nást skipta um lið.

Leikurinn er ærslafenginn og skemmtilegur. Mikill hamagangur verður ef svarið við fullyrðingunni er óljóst fyrir nemendum, þá má búast við að allir hlaupi af stað hver í sína átt.

Mikilvægt: Börnin verða að heyra eftir hverja lotu hvort fullyrðingin hafi verið rétt eða röng. Mjög gott er að hafa stuttar umræður um hverja fullyrðingu, þannig verður leikurinn jafnframt að markvissu námi.

Útfærsla:
Heimild:

Webber, Peter og Neil Punnett. 1987. Geography in Focus. (Physical Geography and Man). London: Macmillan Education.

Leikur númer: 298
Sendandi: Ingigerður Sæmundsdóttir

Deila