Hvað er í pokanum?

Markmið:

Að efla skynjun, athyglisgáfu og færni til að lýsa í máli og myndum. Ef tveir spila bætist við samvinna og þjálfun í að hlusta og fara að fyrirmælum.

Aldursmörk:

Frá 5 ára

Gögn:

Poki með nokkrum hlutum, blað og tússpenni eða veggtafla (myndir af hlutunum, tímamælir).

Leiklýsing:

Nemandin fær poka með ýmsum hlutum. Hann setur hendi ofan í pokann og velur einn hlut til að þreifa á án þess að horfa á hann, en teiknar svo af honum mynd. Hinir sem horfa á geta þá giskað á hvað verið er að teikna. Hægt að skipta bekknum í nokkra hópa sem hafa samvinnu. Þá er hver hópur með sambærilega poka. Hver og einn í hópnum teiknar einn hlut innan ákveðinna tímamarka. Fyrir þá yngstu er möguleiki að hafa þá útfærslu að sagt sé frá því hver hluturinn er eða bent á mynd af sambærilegum hlut.

Útfærsla:

Tveir vinna saman. Annar þreifar fyrir sér í pokanum en lýsir svo hlutnum fyrir hinum sem teiknar mynd af hlutnum eftir lýsingunni. Þá má að sjálfsögðu ekki segja hver hluturinn er, heldur þarf að lýsa honum. Bæði er hægt að hugsa sér að sá sem lýsir sjái ekki hvað hinn er að teikna og þá er gaman að sjá hver útkoman verður eða að þeir sitji hlið við hlið eða að teiknað sé á töfluna og þá megi hann leiðrétta, sér í lagi ef hlutirnir eru flóknir. Eins er möguleiki að sá sem teiknar fái að spyrja sig áfram með formið. Um að gera að aðlaga allar aðstæður að þörfum og getu hópsins. Önnur útfærsla gæti verið að snúa leiknum við og hafa myndir af hlutunum og síðan eigi að finna viðkomandi hlutinn í pokanum.

Heimild:

Sendandi er höfundur leiksins.

Leikur númer: 129
Sendandi: Hrefna Stefánsdóttir

Deila