Hvað er í töskunni?

Markmið:

Efla rökhugsun nemenda. Þjálfa nemendur í munnlegri tjáningu fyrir framan hóp. Að gefa nemendum tækifæri til að leika sér með málið.

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

– Lítil ferðataska.
– Orð á miða
– Minnislisti og spurningar (sjá lýsingu)
– A4 blað og blýantur

Leiklýsing:

Tveir nemendur fá í hönd litla ferðatösku. Í henni er orð sem tengist einhverju sem þau hafa verið að læra um. Þessir tveir nemendur fá það verkefni að gefa vísbendingar um orðið í töskunni án þess að segja hvert orðið er.

Í töskunni er einnig minnislisti um atriði sem hægt er að nýta við lýsinguna: HEYRN, SJÓN, BRAGÐ, LYKT, TILFINNING. Einnig spurningar s.s.: Heyri ég í þessu? Get ég séð þetta? …

Nemendur skrifa á blað fimm vísbendingar sem tengjast þessum eiginleikum og þegar þær eru tilbúnar getur leikurinn hafist. Nemendurnir koma sér fyrir bak við kennaraborðið og kennarinn skráir fyrir þá svo leikurinn gangi hraðar fyrir sig.

Nemendurnir sem eiga að reyna að komast að því hvað er í töskunni mega spyrja spurninga sem hægt er að svara með já og nei. Vísbendingarnar má svo gefa smátt og smátt.

Kennarinn skráir allar vísbendingar og upplýsingar um orðið í töskunni. Til að fá nemendur til að spyrja spurninga sem veita upplýsingar um eiginleika orðsins en ekki spurninga eins og, „Er þetta hjól? Er þetta hestur?”, merkir kennarinn við á töfluna á sama hátt og gert er í gálgaleiknum góðkunna. Ágætt að teikna frekar hús eða bát í stað gálga.

Þá eru höfð takmörk fyrir því hvað hægt er að giska oft á orðið sjálft. Meira máli skiptir að hafa að komast að eiginleikum sem snerta það sem í töskunni er. Þegar krakkarnir hafa svo fundið út hvað er í töskunni, segjum t.d. veiðar, má leika sér að orðmyndun, s.s. hvaða orð gætum við búið til með því að nota þetta orð sem hluta af samsettu orði: Veiðarfæri, fluguveiðar… o.s.frv. Nemendur gætu síðan fengið tækifæri til að skrifa ferðasögu sem fjallaði um þetta orðið eða samsettum orðum sem það er hluti af.

Útfærsla:
Heimild:

Hugmyndin að þessum leik er fengin úr bókinni Börn og ritun.

Leikur númer: 162
Sendandi: Laufey Herdís Guðjónsdóttir

Deila