Hvað heiti ég?

Markmið:

Eftirtekt, einbeiting, minni.

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

Fjórir stólar, miðar.

Leiklýsing:

Nemendum er skipt í tvo hópa, stelpur og stráka. Allir þátttakendur skrifa nafn sitt á lítinn miða. Síðan er fjórum stólum stillt upp og tveir strákar og tvær stelpur setjast á þá. Hinir krakkarnir raða sér síðan í hring á gólfinu, út frá stólunum, til skiptis stelpa og strákur. Kennarinn rýmkar nú fyrir einum nemanda, einhvers staðar í hringnum og á sá nemandi, sem hefur bilið á vinstri hönd, að byrja að kalla nemanda af gagnstæðu kyni við sig, niður af stól og til sín. Þá skiptast þessir tveir nemendur á nafnspjöldum í leiðinni og heita nú nafni hins. Allir þurfa að leggja nafnabreytinguna á minnið. Sá nemandi sem nú er með bil vinstra megin við sig á stólunum, kallar einhvern af sínu kyni upp á stól og skiptir um nafnspjald við hann í leiðinni. Því má ekki gleyma. Eftir nokkur “köll” fara krakkarnir að ruglast á því, hvað hver heitir og fara jafnvel að kalla samherja sinn niður af stól eða andstæðing upp á stól.

Leikurinn gengur út á það að stelpur reyna að kalla stráka niður af stólunum og strákar kalla stelpur niður. Það lið vinnur sem tekst að “fylla” stólana af sínu kyni.

Þetta er hljóðlátur leikur þar sem skipst er á nöfnum og krakkarnir reyna að leggja á minnið nafnabreytingarnar sem eiga sér stað. Spennan eykst þegar líða tekur á leikinn.

Leikurinn getur tekið drjúgan tíma og þá er bara að setja tímamörk á hann og það lið vinnur sem hefur fleiri úr sínu liði uppi á stólum.

Útfærsla:
Heimild:

Leikinn kenndi Sigurður Arnarsson.

Leikur númer: 188
Sendandi: Kristín Helgadóttir

Deila