Hvernig er hægt að komast til …?

Markmið:

Nota kortabækur, ritun. (Landafræði, samfélagsfræði)

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Kortabækur, blöð og skriffæri.

Leiklýsing:

Tveir, fjórir, sex eða fleiri geta verið í þessum leik. Nemendur vinna í pörum og ef pörin eru fleiri en einn er gott að þeir beri saman bækur sínar.

Ákveðið er að ferðast frá einni Evrópuborg til annarrar (t.d. frá París til Aþenu). Notaðar eru kortabækur og leiðin á milli borganna fundin. Skrifaðar eru niður allar þær borgir sem fara þarf um til að komast þessa leið. Það má ekki fljúga, heldur þarf að aka, hjóla, fara með lest eða sigla. Stundum geta margar leiðir komið til greina og nemendur þurfa að velja bestu leiðina. Nemendur þurfa að skrifa leiðarlýsingu í samfelldu máli. Tveir og tveir ferðast saman og bera sig svo saman við hina. Fóru allir sömu leið? Hægt er að láta nemendur velta fyrir sér vegalengd í kílómetrum á milli staðanna eftir þeirri leið sem þeir fóru og reikna hana út með því að nota bandspotta eða þar til gert tæki (kílómetrahjól). Nemendur þurfa að geta lesið mælikvarðann á kortinu til að finna út raunverulega vegalengd. Ef bandspotti er notaður er hann lagður nákvæmlega eftir leiðinni og síðan er hann mældur með reglustriku og reiknað út frá mælikvarðanum á kortinu.

Útfærsla:
Heimild:

Stuðst við hugmynd að leik úr bókinni Se på Europa eftir Bodil Frederiksen (1989. Horsens: Åløkke).

Leikur númer: 131
Sendandi: Guðrún Dröfn Ragnarsdóttir og Auður Stefánsdóttir

Deila