Já og nei leikurinn

Markmið:

Skerpa athygli, örva sjálfstæði og efla hópkennd.

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Engin.

Leiklýsing:

Þátttakendur sitja í hring. Leikurinn gengur út á það að láta orðin já og nei ganga. Jáið gengur réttsælis og neiið gengur rangsælis og hefst leikurinn þannig að einn segir já og lítur síðan á næsta mann sem segir já o.s.frv. Til þess að láta jáið snúa við verður sá er næst á að segja orðið að þegja og sá sem situr næst honum á hægri hönd verður þá að vera fljótur að átta sig og segja nei, það orð snýr ekki við fyrr en einhver þagnar og sá er situr honum þá á vinstri hönd verður þá að vera fljótur að átta sig og segja já o.s.frv.

Útfærsla:

Það vill stundum brenna við í þessum leik að orðin festast á einum stað þ.e.a.s. ef það eru alltaf sömu aðilar sem þagna. Þess vegna hefur reynst vel að segja í upphafi að hver þátttakandi megi bara þagna tvisvar sinnum. Hægt er að nota þennan leik til þess að þjálfa ýmislegt annað; t.d væri hægt að láta nafnorð ganga réttsælis og lýsingarorð rangsælis. Einnig er hægt að þjálfa taktskyn með því t.d. að láta ta (fjórðapart) ganga réttsælis og títí (áttundapart) rangsælis.

Heimild:

Sumarnámskeið hjá Reinhard Ring, 1985.

Leikur númer: 101
Sendandi: Elín Gunnlaugsdóttir

Deila