Kóngulóarvefur

Markmið:

Lestrarkennsla, greina hljóð aftast í orði og finna ný orð, finna mynstur, nota ímyndunaraflið.(Lestur)

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Garnhnykill.

Leiklýsing:

Nemendur sitja í hring, helst ekki meira en hálfur bekkur (10-12 nemendur). Einn nemandinn fær garnhnykil. Hann heldur í endann á spottanum og um leið og hann hendir hnyklinum til einhvers nemanda þá segir hann eitthvert orð, t.d. rós. Sá sem tekur við hnyklinum á að finna nýtt orð sem byrjar á stafnum s og henda hnyklinum áfram til einhvers sem ekki hefur fengið hann áður. Þegar allir hafa prófað að henda og taka á móti hnyklinum er kominn hinn myndarlegasti kóngulóarvefur. Þá er upplagt að nota tækifærið og skoða mynstrið sem myndast og hver og einn á að segja frá einhverju sem hann sér út úr vefnum. T.d. bókstafi (A,M), þríhyrning, kassa og kattareyru. Það er gaman að lyfta vefnum upp og kíkja upp í gegnum hann. Þá fer ímyndunaraflið gjarnan af stað!

Útfærsla:
Heimild:
Leikur númer: 135
Sendandi: Sigrún Ingimarsdóttir

Deila