Látbragðið gengur

Markmið:

Að fá nemendur til að nota leikræna tjáningu, að efla hugmyndaflug, auka orðaforða.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Engin.

Leiklýsing:

Þrír til fimm nemendur fara út úr kennslustofunni og dyrum er lokað. Stjórnandi sýnir þeim sem inni eru eitthverja athöfn með látbragði. Tilvalið er að nota leikinn í tengslum við kennslu í orðflokkagreiningu; hægt er að leika ákveðna sögn, ákveðið nafnorð, lýsingarorð o.s.frv. Einnig er hægt að nota leikinn í kennslu erlendra tungumála og fást við orð úr áðurnefndum flokkum á dönsku eða ensku. Eftir að stjórnandinn hefur sýnt látbragðið er einn af þeim þátttakendum, sem frammi bíða, látinn koma inn og stjórnandinn endurtekur látbragðið fyrir hann. Þátttakandinn á síðan að leika þetta fyrir þann næsta sem kemur inn og þannig koll af kolli. Þegar síðasti þátttakandinn hefur séð látbragðið verður hann að endurtaka það og síðan að segja hvað hann heldur að það tákni.

Útfærsla:

Í stað látbragðs má nota stutta sögu, sem sögð er fyrsta þátttakanda og er síðan látin ganga til þess síðasta, sem einnig endurtekur hana. Best er ef sagan er skrifuð og hún lesin aftur í lokin, til samanburðar við þá sögu sem þá er orðin til. Þessa útfærslu mætti að sjálfsögðu einnig nota í kennslu erlendra tungumála.

Heimild:
Leikur númer: 248
Sendandi: Sunna Viðarsdóttir

Deila