Lítið skip – stórt skip

Markmið:

Hreyfing, athygli og skarpskyggni, æfing í framsögn, hraði og snerpa.

Aldursmörk:

Frá 3 ára

Gögn:

Engin

Leiklýsing:

Einn er sögumaður og hinir hlusta og framkvæma. Ákveðin lykilorð eru í leiknum og þegar þau eru nefnd eiga þátttakendur að leika eða hlaupa:

Fallbyssa: Þátttakendur beygja sig niður og halda með höndum um fætur.
Fugl: Þátttakendur blaka höndum.
Skipstjóri: Þátttakendur setja útrétta hönd út í loftið.
Stór: Þátttakendur hoppa hátt í loft.
Lítill: Þátttakendur beygja sig niður.
Hafmeyja: Þátttakendur setja fætur þétt saman.
Sjór: Þátttakendur mynda bylgju með höndum.
Lítið skip, stórt skip og eyja: Fyrirfram ákveðnir, mismunandi staðir.

Sögumaður býr til og segir sögu sem inniheldur ofangreind orð. Um leið og lykilorð er sagt leika þátttakendur orðið eða hlaupa á staðinn sem ákveðinn var. Sá síðasti sem framkvæmir orðið er úr en hinir halda áfram. Sá sem síðastur er úr leik vinnur og fær að vera sögumaður næst.

Útfærsla:

Hægt er að breyta leiknum eftir aldri með því að fækka lykilorðum eða bæta við þau. Einnig getur slunginn sögumaður sagt sögu sína á mismunandi máta, til dæmis með því að nefna mörg lykilorð í einu og gera leikinn þannig ennþá meira spennandi og erfiðan.

Að sjálfsögðu geta þátttakendur glímt við að búa til fleiri leiki af þessari gerð með því að búa til aðrar sögur og fyrirmæli.

—–

Bryndís Gunnarsdóttir á Ísafirði segir um þennan leik (2009):

Ég og samkennarar mínir á leikskólanum mínum prófuðum þennan leik í íþróttahúsi með þriggja til sex ára börnum. Við einfölduðum hann þó nokkuð, höfðum lítið skip, stórt skip og eyju sem við bjuggum til með köðlum, keilum og myndum á gólfi íþróttahússins. Einnig notuðum við hreyfinguna fyrir skipstjórann. Einn kennarinn sá svo um að vera sögumaður og voru börnin á heilmikilli hreyfingu í þær u.þ.b. 10 mínútur sem leikurinn stóð. Þeim fannst þessi leikur æðislega skemmtilegur og hafa síðan oft spurt mig hvort við ætlum ekki örugglega aftur í hann næst þegar við förum í íþróttahúsið. Hann sló sem sagt alveg í gegn hjá okkur og mæli ég því með honum. Hann er líka svo sniðugur því það er hægt að einfalda hann og flækja og hann hentar því í raun alveg frá 3ja ára upp í elstu bekki grunnskólans.

Heimild:

Leikurinn var spunninn af krökkum (höfundi meðtöldum) í Vesturbænum um 1992.

Leikur númer: 58
Sendandi: Guðrún Ólafsdóttir

Deila