Lúdó

Markmið:

Afþreying, einbeiting og þolinmæði.

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Lúdó-spilaborð með reitum sem búið er að aðgreina fyrir spurningarnar. Spurningaspjöld fyrir þá námsgrein sem á að kenna. Peð. Blað og blýantur.

Leiklýsing:

Lúdó er einfalt spil og flestir krakkar þekkja leikreglurnar. Leikurinn gengur út á það að koma peðum sínum sem fyrst í mark. Hver leikmaður hefur fjögur peð, öll í sama lit. Engir tveir þátttakendur hafa sama lit á peðum. Til að koma fyrsta peði sínu inn á spilaborðið þarf að fá töluna 6 á teningnum (aðeins einn teningur er notaður). Ef leikmaður fær aftur töluna 6 þá getur hann sett annað peð í umferð. Ef annar leikmaður kemur peði á sama reit getur hann rekið peðið, sem fyrir var, í heimahöfn.

Útfærsla:

Í þessari útfærslu er gott að kenna íslensku. Nokkrir reitir á spilaborðinu eru litaðir og þar eiga nemendur að stansa og svara einni spurningu. Gerð eru spjöld með spurningum sem nemendur eiga að svara áður en þeir fá að halda áfram. Spurningar á spjöldunum geta verið margvíslegar. Ef verið er að kenna orðflokkana er upplagt að hafa spurningar sem tengjast þeim. Í stafsetningarkennslu þar sem t.d. er verið að kenna n og nn reglu er hægt að láta nemendur skrifa ákveðið orð og athuga hvort þeir skrifa það rétt. Svörin eru alltaf á sama spjaldi og spurningin.

Hægt er að nota spilið í ensku- og dönskukennslu á sama hátt. Kjörið er að nemendur búi verkefnin til sjálfir.

Heimild:
Leikur númer: 228
Sendandi: Ragna Kristjánsdóttir og Ragnhildur Sigurðardóttir

Deila