Málfræðiratleikur

Markmið:

Málfræði og stafsetning, þekking á þjóðsögum, virkja nemendur, samvinna og félagsandi, tilbreyting. (Móðurmálskennsla, íslenska).

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Sjá lýsingu.

Leiklýsing:

Þessi ratleikur miðast við það að nemendur hafi verið að fást við þjóðsögur (draugasögur) og hér er því markmiðið m.a. það að nota bókmenntaefni til málfræðiiðkana.

Í ratleik eins og þessum er hægt að kljást við margs konar málfræðiæfingar og er hann því góð tilbreyting fyrir nemendur.

Útfærsla:

Undirbúningur:

Þennan ratleik má setja upp í venjulegri skólastofu. Kennarinn útbýr teikningu af stofunni og merkir númer á teikninguna þar sem hann hefur falið póstana. Teikningarnar af stofunni verða að vera jafn margar og póstarnir því hver hópur þarf að fá eina teikningu í hendur. Póstarnir eru merktir inn á teikninguna með tölunum 1-10. Við hvern póst er að finna umslag sem er merkt með númeri frá einum og upp í tíu. Í hverju umslagi eru höfð nægilega mörg verkefni handa öllum hópunum.

Framkvæmd:

Nemendur vinna tveir til fjórir saman við lausn verkefnanna. Einnig má hafa einstaklingsverkefni eða fleiri saman í hóp. Nemendur eiga að finna tíu pósta eftir korti af skólastofunni sem þeir fá í hendur. Ekki geta allir byrjað á pósti númer eitt því allir hóparnir eiga að byrja samtímis. Þess vegna er best að hóparnir byrji á mismunandi stað. Einn hópurinn byrjar á pósti númer eitt, annar á pósti númer tvö o.s.frv. Þegar nemendur hafa fundið sinn stað, leysa þeir verkefnið þar. Síðan fara þeir og finna næsta póst og síðan koll af kolli þar til allir póstarnir eru fundnir.

Dæmi um verkefni:

1. póstur

Finnið fornöfnin í eftirfarandi texta og greinið þau í flokka.

Galdramaður er nefndur, sem Finnur hét; hann var svo forn og illur í skapi að allir voru hræddir við hann. Þegar hann dó vildi enginn, hvorki karl né kona, verða til þess að líkklæða hann og sauma utan um hann. Þó varð kvenmaður einn til þess að reyna það. Komst hún ekki nema hálfa leið og varð svo vitstola. Þá gaf önnur sig til og gaf hún sig ekki að því hvernig líkið lét. Þegar hún var nærri búin sagði Finnur: “Þú átt eftir að bíta úr nálinni.” Hún svaraði: “Ég ætlaði að slíta en ekki bíta, bölvaður.” Sleit hún síðan nálina frá, braut hana í sundur og stakk brotunum í iljar líkinu. Er þess ekki getið hann gjörði neinum framar mein.

(Hér vantar línur fyrir úrlausn)

2. póstur

Finnið þrjú lýsingarorð í eftirfarandi texta og stigbreytið þau í öllum kynjum.

Maður hét Guðbrandur og var Jónsson; var hann mikill fyrir sér bæði til sjós og lands; átti hann gott bú og gnægð fjár, var hann og fyrirhafnarmaður hinn mesti, en kallaður var hann miðlungi góðgjarn, illur viðfangs og ójafnaðarmaður og fégjarn.

Karlkyn Kvenkyn Hvorugkyn
Frumstig _______________ _______________ _______________
Miðstig _______________ _______________ _______________
Efsta stig _______________ _______________ _______________

O.s.frv.

3. póstur

Finnið 10 nafnorð í eftirfarandi texta, skrifið þau í auðu línurnar og greinið kyn þeirra, tölu og fall.

Þykir henni þá að við svo búið megi ekki lengur standa, fer því ofan og vekur Þorstein en vofa Solveigar hopar fyrir henni og fékk ekki staðist augnaráð hennar. En það sér Guðlaug að rauð rák var á hálsinum á Þorsteini þar sem Solveig hafði myndað til skurðarins. Síðan spyr hún Þorstein hvað hann hafi dreymt. Hann sagði að sér hefði þótt Solveig koma til sín og segja að ekki skyldi sér þetta duga og aldrei skyldi hann vísari verða hvað orðið hefði um síra Odd. Þar með hefði hún lagt á sig hendur og ætlað að skera sig á háls með stórri sveðju og kenndi hann enn sársaukans er hann vaknaði. Eftir það hætti Þorsteinn þeim ásetningi sínum að grafast eftir hvar prestur væri niðurkominn. Lítið hefur borið á Solveigu síðan.

Nafnorð kyn tala fall

(Fleiri línur)

4. póstur

Botnið eftirfarandi sögu:

Hann opnaði kistuna, skar höfuðið af kerlingarsauðnum og setti það við þjóinn. Því næst lokaði hann kistunni aftur og ætlaði á burt en þá tók hann eftir því að hann hafði gleymt hnífnum í kistunni. Varð hann því að opna kistuna aftur.

(Línur fyrir svör)

5. póstur

Settu nafnorðin sem eru í sviganum, inn í eyðurnar. Hafðu þau í réttum föllum.

Nálægt 1718 kom fyrir sá fáheyrði (atburður)____________ er nú skal sagður. (Hjón)____________ bjuggu að (Vatnsholt)____________ í (Flói)____________. Ekki er hér getið um (nafn)____________ þeirra. Þau héldu (vinnustúlka)______________ ásamt einhverju fleiru (fólk)____________. (Stúlka)_____________ þessi var nýlega heitbundin (vinnumaður)___________ á (bær)____________. Réri (kærasti)______________ hennar til (sjór)____________ suður á (Nes)______________. Það var eitt (kvöld)_____________ að (húsfreyja)________________ fór fram í (búr)_____________ að skammta (fólk)___________ sínu. Það var framarlega í (bær)____________ og löng (göng)_____________ að fara þangað úr (baðstofa)______________. Bað (kona)_____________ (stúlka)______________ að færa sér (matarhylki)_______________ þangað fram. Hún tók (askar)____________ úr (askaklefi)_____________ í svokallaðar (askagreipur)_______________ og fór fram með þá. En það er að segja af (kona)______________ að hún kallaði og kallaði, beið og beið í (búr)________________. En ekki kom (stúlka)________________ .

6. póstur

Greinið eftirfarandi setningu í orðflokka.

Var hann grafinn á hinum sama kirkjustað og hinn kvæntist og var veislan haldin á kirkjustaðnum.

(Línur fyrir svör)

7. póstur

Fallbeygið fjögur nafnorð í eftirfarandi setningu bæði í eintölu og fleirtölu.

Hann fór á fætur og hellti úr fjögra potta kút yfir leiði vinar síns og dreymdi hann ekki framar.

eintala fleirtala

(Fleiri línur)

8. póstur

Breytið textanum úr þátíð í nútíð.

Síðan var leitinni hætt og töldu flestir það víst að Solveig mundi hafa efnt orð sín og séð svo fyrir að hann fengi ekki leg í kirkjugarði og að hún mundi hafa haft hann með sér í dys sína en þó var þar aldrei leitað. Þegar allri leit var hætt ásetti Þorsteinn, vinnumaður prests, sér að hætta ekki fyrr en hann yrði þess vísari hvað orðið hefði um húsbónda sinn. Þorsteinn þessi svaf í rúmi rétt á móti konu þeirri er sofið hafði hjá Solveigu og var hún bæði skýr og skyggn.

(Línur fyrir svör)

9. póstur

Finnið tíu nafnorð í textanum og stofn þeirra. Presturinn, síra Jón Hallsson, var inni meðan líkmenn tóku gröfina. En áður en því var lokið kemur einn líkmaðurinn inn til hans og segir, að nokkuð furðulegt hafi borið fyrir þá er voru að taka gröfina. Þeir hafi komið niður á fætur og fótleggi manns, og virðist vera karlmannsfætur stórir, en þeir snúi þversum við það sem venjulegt sé að leggja lík í gröf og það annað að tærnar horfi niður. Á fótunum sagði hann vera gamaldags reiðstígvél, allmjög fúin, og væru sporar á þeim. Presti varð hverft við og bað þá moka aftur ofan í gröfina sem fljótast og taka gröf á öðrum stað en láta hljótt yfir fundinum. Það var gert án frekari rannsóknar. Löngu síðar sagði síra Jón frá þessum atburði vini sínum Jónasi bónda í Hróarsdal en hann sagði syni sínum Jóni Normann og hann aftur mér, og kvað síra Jón hafa talið víst að líkmenn munu hafa hitt á dys Solveigar og fæturnir verið Odds prests er hvarf.

Nafnorð Stofn

(Fleiri línur)

10. póstur

Setjið sagnirnar í viðeigandi form í eyðurnar.

Sá atburður (gerast)____________ í Seyðisfirði vestra fyrir allmörgum árum að kerling ein (ganga)____________ ofan stiga ofan af palli en henni (vera)____________ fótaskortur og (takast)____________ ekki betur til en svo að hún hálsbrotnaði. Maður nokkur (koma)____________ að henni þar sem hún (liggja)____________ í andarslitrunum og (mæla)____________ til hennar: “Þar (fara)____________ til helvítis.” Það (vera)____________ rétt svo að kerling (mega)____________ mæla og (segja)____________ hún að hann skyldi iðrast þessara orða. Rétt á eftir (deyja)____________ kerling en (taka)____________ þegar að sækja svo rammt að manninum að hann (hafa)____________ engan frið.

Heimild:
Leikur númer: 32
Sendandi: Lilja Dóra Harðardóttir

Deila