Mennsk stafasúpa

Markmið:

Orðaforði, ímyndunarafl, útsjónarsemi, samvinna.

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

Spjöld með bókstöfunum úr orðinu (gott að nota spjöld sem er hægt að hengja um hálsinn), myndavél mætti þó nota túss og flettitöflu í staðinn, (hugsanlega kennaratyggjó).

Leiklýsing:

Kennari skrifar orðið sem nemendur eru að vinna með á töfluna og afhendir þeim stafaspjöldin sem þeir hengja á sig. Nemendur reyna svo að raða sér upp í raðir þannig að stafirnir sem þeir hafa um hálsinn myndi merkingarbær orð. Kennarinn getur verið ritari og skrifað á flettitöflu þau orð sem nemendur finna. Skemmtilegra er þó að taka ljósmyndir af röðunum og búa til orðabanka á vefsvæði bekkjarins þar sem hægt væri að skoða myndir af orðaröðum. Myndir af lengstu röðunum mætti prenta út og hengja upp í bekkjarstofunni.

Ef nemendur eru færri en stafirnir í orðinu má leggja afgangsspjöld á stóla eða hengja þau með kennaratyggjói á rétta staði ef orðinu er raðað upp við vegg. Ef nemendur eru fleiri en stafirnir í orðinu má skiptast á eða fá þá sem ekki hafa spjöld til að raða hinum í orð.

Útfærsla:

Fyrir eldri nemendur mætti gera þetta án þess að tala eða skipta í hópa og sjá hver nær flestum eða lengstum orðum.

Heimild:
Leikur númer: 348
Sendandi: Harpa Henrysdóttir

Deila