Merda

Markmið:

Afþreying, athygli, einbeiting, snerpa, félagsandi, samlagning, verkefni úr námsefni.

Aldursmörk:

Frá 5 ára

Gögn:

Spilastokkur.

Leiklýsing:

Merda er ítalskt orð og þýðir skítur. Ef fólk kærir sig ekki um að nota orðið merda eða skítur má nota hvaða orð sem er í staðinn.

Þrír til tíu geta verið með í spilinu. Öll 52 spilin eru notuð. Ef fjórir eru með eru ásarnir, kóngarnir, drottningarnar og gosarnir notaðir til að hafa á hendi því hver spilari fær einungis fimm spil. Afgangurinn af spilunum er hafður í bunka á miðju spilaborðinu.

Sá sem situr á vinstri hönd við þann sem gaf, byrjar á því að lauma einu spili til næsta manns og þannig koll af kolli uns einhver er kominn með fjögur eins spil (fjóra kónga, drottningar o.s. frv.). Um leið og einhver er kominn með slíka samstæðu slær hann á bunkann í miðjunni og segir merda. Hinir spilamennirnir flýta sér þá að slá líka á bunkann en sá sem verður síðastur til þess þarf að draga efsta spilið í bunkanum.

Spilið gengur út á það að sá tapar sem oftast hefur þurft að draga úr bunkanum eða réttara sagt sá sem hefur dregið flesta “skítana” samanlagt (það er t.d. mun betra að draga tvist úr bunkanum en tíu því sá sem dregur tvist er einungis kominn með tvo slagi á meðan hinn er kominn með tíu þó svo báðir hafi einungis dregið einu sinni úr bunkanum.)

Spilið snýst sem sagt um það að reyna að láta andstæðinginn fá sem flesta slagi og það má m.a. gera með því að plata. Það fer þannig fram að þó leikmaður sé ekki með fjögur eins spil má hann slá við hliðina á bunkanum í von um að andstæðingurinn slái á bunkann sjálfan og þurfi þar af leiðandi að draga.

Útfærsla:

Hægt er að búa til spil úr námsefni og spila eftir ýessum reglum. Dæmi: Setja má samheiti, öll föll sama orðs eða t.d. kennimyndir sagna á samstæðu spilin. Á hin spilin eru síðan sett stök orð. Í stað orðsins merda má t.d. kalla ferna þegar slegið er á bunkann.

Heimild:

Þetta skemmtilega spil kenndi ítalskur skiptinemi.

Leikur númer: 230
Sendandi: Lilja Dóra Harðardóttir

Deila