Morðingi 2

Markmið:

Athygli, stærðfræði, skemmtun.

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Engin.

Leiklýsing:

Leikurinn byggist á leiknum Morðingja. Kennarinn notar lítil pappaspjöld, jafn mörg og nemendur eru. Hann býr til eitt reikningsdæmi á hvert spjald. Dæmin eru gerð með hliðsjón af því efni sem nemendur eru að læra í stærðfræðinni. Dæmi: samlagning, frádráttur, deiling, margföldun eða prósentureikningur.

Nemendur sitja í hring á gólfinu. Hver nemandi fær eitt spjald og reiknar í huganum útkomuna úr dæminu sem þar er. Kennarinn ákveður að sá sem fær ákveðna útkomu, t.d. 10, sé morðinginn í leiknum. Sá sem er með það spjald á þá að reyna að blikka sem flesta, einn í einu, án þess að hinir sjái. Sá sem var blikkaður lætur þá spilið í miðjan hringinn og hann er dauður. Ef einhver nemandi sér morðingjann blikka annan getur hann “ákært” en þá þarf annar nemandi að styðja hann. Ef sá sem ákærir bendir á vitlausan morðingja “deyr hann”, ásamt þeim sem studdi hann.

Morðinginn vinnur ef hann nær að drepa (blikka) alla hina, en ef það kemst upp um hann fyrr er leikurinn búinn.

Útfærsla:

Kennarinn getur notað þennan leik með nemendum á mismunandi aldri – þá velur hann dæmi við hæfi nemenda. Einnig er hægt að byggja leikinn á öðrum námsgreinum, t.d. íslensku. Þá getur sá verið morðinginn sem fær miða með atviksorði en allir hinir miðarnir eru t.d. með lýsingarorði.

Kjörið er að leyfa nemendum sjálfum að búa til miðana sem notaðir eru í leiknum.

Heimild:

Þóra Þórisdóttir

Leikur númer: 141
Sendandi: Þorbjörg Arnórsdóttir

Deila