Nafnaleikur með tilþrifum

Markmið:

Læra nöfn, skapa góða stemningu, söngur, leikræn tjáning.

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

Engin.

Leiklýsing:

Þátttakendur mynda hring og haldast í hendur. Sá sem valinn er til að vera fyrstur losar sig og gengur inn í hringinn og syngur nafnið sitt með tilþrifum: „Ég heiti …“ og framkvæmir um leið leikræna hreyfingu eða býr til dans. Síðan snýr hann sér að einhverjum í hringnum sem ekki hefur kynnt sig og hneigir sem fyrir honum eða gefur með öðrum hætti (með bendingum, togar viðkomandi fram á gólfið, blikkar …) til kynna að sá eigi að taka við. Nemendur reyna að hafa söng og leik­ræna tilburði sem fjölbreyttasta og helst að láta kynningarnar ganga svo greiðlega fyrir sig að samfella verði í leiknum.

Útfærsla:

1. Hver nemandi endurtekur leik þess sem var næstur á undan og syngur „Þú heitir … “ um leið og hann endurtekur hreyfinguna. Síðan bætir hann við „ … en ég heiti … “ og bætir við sinni eigin hreyfingu.

2. Um leið og nemandinn hefur kynnt sig svara hinir „Þú heitir …“ og reyna að syngja það með sama lagi um leið og þeir reyna að endurtaka þá hreyfingu eða leikrænu tilburði sem fylgdu.

Heimild:

Heimasmíðaður leikur.

Leikur númer: 287
Sendandi: Ingvar Sigurgeirsson

Deila