Öll orð byrja á sama staf (orða- og hugtakaleikur)

Markmið:

Efla orðaforða, hugmyndaflug, rökhugsun.

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Línustrikuð blöð, blýantar. Úr, skeiðklukka eða annað tæki til tímatöku.

Leiklýsing:

Þessi leikur getur verið keppni milli einstaklinga eða hópa.

Leikurinn hefst á því að búnir eru til listar yfir 10 til 12 hugtakaflokka, dæmi:

1 Orð sem tengjast ástinni
2 Lýsingarorð
3 Skordýr
4 Vatn
5 Sjávarútvegur
6 Trú
7 Þorskurinn
8 Ritvél
9 Rithöfundur
10 Gleraugu
11 Tölvur
12 Kvikmyndir

Þessa lista má búa til í byrjun leiksins eða í byrjun hverrar umferðar (sem er þá hluti af leiknum). Eins má hafa listana tilbúna fyrirfram. Leiknar eru nokkrar umferðir og nýr listi notaður í hverri umferð.

Þegar listi hefur verið ákveðinn er einn bókstafur (þó ekki “ð”) valinn af handahófi (t.d. með því að draga).

Nemendur fá síðan ákveðinn tíma, t.d. eina eða tvær mínútur til að skrá orð sem eiga við flokkana tólf og byrja á þeim staf sem valinn var. Sem dæmi má nefna að ef stafurinn A hefði verið valinn, gætu eftirfarandi tvær lausnir komið fram:

Hugtök – flokkar Dæmi um lausn Annað dæmi um lausn
Orð sem tengjast ástinni Amor Andköf
Lýsingarorð Andlegur Andstuttur
Skordýr Afturvængir Afturfætur
Vatn Afrennsli Andakílsá
Sjávarútvegur Afli Aflakóngur
Trú Andi Andaglas
Þorskurinn Aflahrota Aflaverðmæti
Ritvél ABC A-lykill
Rithöfundur Andrés Indriðason Arnaldir Indriðason
Gleraugu Afi Andlit
Tölvur Afritun Archimedes
Kvikmyndir Amacord Aldrei á Sunnudögum

Gefið er eitt stig fyrir hvert orð sem talið er gilt. Stjórnandinn ákveður hvort orð eru gild eða ekki. Einnig má hafa dómnefnd til að skera úr um þetta. Ef tveir eða fleiri hafa sama orð fæst ekkert stig.

Í lokin eru stigin talin og sigrar sá sem hefur flest stig.

Útfærsla:

Þennan leik má m.a. nota í móðurmálskennslu, kennslu erlendra mála, í samfélagsgreinum eða náttúrufræði og eru orðin þá tengd tilteknu efni. Skemmtilegt afbrigði er að sigurvegarar í hverri umferð fái að búa til listann yfir flokkana sem notaðir eru í næstu umferð. Ef leikið er í hópum er hægt að leyfa hverjum hóp að leggja fram einn lista og hafa umferðirnar jafnmarga hópunum. Hópur situr hjá þegar leikið er með listann hans og getur þá verið í dómarasæti.

Annað afbrigði af þessum leik (gæti verið skemmtilegur samkvæmisleikur) er að gefa aukastig fyrir sérlega frumlegar eða óvenjulegar lausnir. Þá má hafa dómnefnd til að gefa aukastigin.

Afbrigði af þessum leik er hægt að fá í enskri útgáfu sem heitir “Scattergories”.

Heimild:
Leikur númer: 166
Sendandi: Guðný Halldórsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson

Deila