Orðaleit

Markmið:

Stafsetning, að æfa nemendur í að vinna með og þekkja stafi.

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

U.þ.b. 40 pappabútar (t.d. er hægt að skera pappakassa niður). Á hvern bút er skrifaður stafur. Athugið að skrifa greinilega svo ekki fari á milli mála um hvaða staf er að ræða.

Leiklýsing:

Gott er áður en byrjað er að hafa í huga hvaða orð þessir nemendur hafa verið að læra undanfarið og nota þau í leiknum. Bekknum er skipt í fámenn lið (3-4 í liði) og börnin látin standa í röð við ákveðinn stað í stofunni, (eða á ákveðnu striki ef í íþróttasal), öll jafnlangt frá miðsvæðinu. Pappabútarnir eru settir í haug í miðri stofunni/salnum. Nú skrifar stjórnandinn eitthvert orð á töfluna eða blað þar sem allir sjá það greinilega.

Útfærsla:

Við merki frá stjórnandanum hlaupa fyrstu börn í hverju liði af stað og snúa við einum pappabút. Ef hægt er að nota stafinn, sem skrifaður er á hann, í orðið sem á að mynda taka þau bútinn með til baka og leggja hann á gólfið hjá sínu liði. Ef ekki er hægt að nota hann er bútinum snúið við aftur og hann settur aftur í hauginn. Strax og fyrsti hlaupari kemur til baka slær hann á höndina á næsta manni og hann hleypur af stað. Svona gengur leikurinn þangað til eitthvert liðið hefur náð að mynda umbeðna orðið. Við að ná að mynda orð fæst eitt stig. Leiknum er lokið þegar ákveðnum stigafjölda er náð. Afbrigði: Til að gera leikinn léttari er hægt að taka út þá pappabúta sem ekki er hægt að nota í orðið, þegar búið er að snúa þeim við einu sinni. Hægt er að láta börnin sjálf velja orð (t.d. liðið sem tapar). Hægt er að nota mismunandi hreyfingar, t.d. hopp, kóngulóargang, bjarnargang o.s.frv. Einnig er hægt að leika þennan leik ofan í sundlaug eða úti. Gott er að breyta liðunum eftir nokkur skipti.

Heimild:
Leikur númer: 169
Sendandi: Árni Björgvinsson

Deila