Örkin hans Nóa (2)

Markmið:

Efla samvinnu og einbeitingu í stórum hóp – hafa gaman.

Aldursmörk:

Frá 5 ára

Gögn:

Stólar fyrir helming þátttakenda og klútar eða treflar fyrir hinn helminginn.

Leiklýsing:

Þátttakendur vinna saman tveir og tveir. Hvert par á að vera eitthvert dýr sem Nói tók með sér í örkina sína. Best er að velja dýr sem auðvelt er að herma eftir. Leyfa má nemendum að velja hvaða dýr þeir eru (nema að engin tvö pör mega vera sama dýrið). Gott verkefni er að nemendur búi til spjöld sem notuð eru til að draga hvaða dýr kemur í hlut hvers pars.

Stólum er raðað í hring þannig að seturnar snúa inn í hringinn. Annar í hverju pari fer svo út á meðan hinn velur sér stól og tekur sér stöðu fyrir aftan hann. Þeir sem fóru út binda fyrir augun á sér áður en þeir koma inn aftur. Þegar þeir blindu koma inn ganga þeir inn í stólahringinn. Sá sem stendur fyrir aftan stólinn á nú að reyna að ná félaga sínum til sín með því að herma eftir því dýri sem þau fengu í sinn hlut.

Leiknum lýkur þegar dýrin hafa náð saman.
Þetta getur orðið snúið vegna hávaðans þegar öll dýrahljóðin heyrast í einu.

Útfærsla:

Hægt er að útfæra þennan leik á fleiri vegu og skipta dýrahljóðum út fyrir einhver önnur hljóð eða til dæmis stafi. Hvert par gæti átt sinn staf.

Sjá einnig afbrigði á þessari slóð http://www.reynisholt.is/index.php/umhverfismennt/leikir/562

Heimild:

 

 

Leikur númer: 350
Sendandi: Erla Þórarinsdóttir, Nanna Jónsdóttir, Lovísa Magnúsdóttir og Sara Hjálmarsdóttir sendu inn 2011.

Deila