Póstleikur

Markmið:

Festa tiltekið námsefni í minni (sjá lýsingu), þjálfa nemendur í notkun uppflettirita.

Aldursmörk:

Frá 8 ára

Gögn:

Umslög og miðar (sjá lýsingu), uppflettirit.

Leiklýsing:

Kennari eða hópur nemenda, sem hefur undirbúið leikinn, felur t.d. 10 umslög í stofunni. Á hvert umslag þarf að vera búið að skrifa það lausnarorð sem nemendur eiga að leita að. Sem dæmi má nefna að tengja leikinn landafræði og eru þá umslögin t.d. merkt hvert sínu landi. Þátttakendur fá síðan “póstinn” í hendur en það eru áletraðir miðar (t.d. jafnmargir og umslögin) og á hverjum miða er eitt nafn (t.d. nafn á borg, á, vatni, fjalli, þekktri persónu, vöru sem framleidd er í landinu). Fyrsta verk leikmanna er að merkja sér miðana. Póstarnir leggja síðan af stað, leita að umslögunum og lauma miðum sínum í þau þegar þau finnast. Sá vinnur sem fyrstur kemur öllum sínum pósti til skila.

Heimildarit, kortabækur, námsefni og önnur uppflettirit mega gjarnan vera tiltæk.

Útfærsla:

Landafræði: Heimsálfur, lönd, landshlutar, sýslur.
Saga: Mismunandi tímabil.
Náttúrufræði: Umslögin eru merkt tilteknum vistkerfum en á miðunum eru nöfn lífvera.
Móðurmál: Orðflokkar.
Heimilisfræði: Fæðuflokkarnir.
Tungumál: Mismunandi staðir (eldhús, veitingastaður, brautarstöð o.s.frv.)

Heimild:
Leikur númer: 142
Sendandi: Anna Kristín Guðmundsdóttir

Deila