Ratleikur (innileikur)

Markmið:

að örva hreyfingu barna að stuðla að líkams- og hreyfiþroska, að örva náms- og leikgleði á uppbyggjandi hátt, að efla félags- og siðgæðisþroska. (Lestur)

Aldursmörk:

Frá 6 ára

Gögn:

Sjá lýsingu.

Leiklýsing:

Undirbúningur:

1. Svæðið valið, kennarastofan (þá yrðu færri stöðvar) eða salur skólans.
2. Kennileiti notuð til að auðkenna stöðvar, t.d. gerð húsa (einbýlishús, blokk o.fl.) Stöðvarnar merktar með teikningum barnanna af húsunum. Hægt er að nota dýr, blóm eða hvað annað.

3. Það sem þarf með er: kort, verkefni og myndrænar leiðbeiningar í A5 plastumslögum, skriffæri, svarblöð og stöðvarnúmer, rauðar doppur (lítil límmerki) til að taka og setja á sitt blað, þegar þau hafa fundið stöð, límband til að festa plastumslögin með.

4. Fjöldi stöðva ákveðinn með tilliti til fjölda barnanna og staðsetningu leiksins. Hér er reiknað með 6-8 stöðvum. Eftir því sem leiksvæðið er minna, því færri stöðvar. Bilið á milli stöðvanna ræðst einnig af rýminu og fjölda barnanna..

5. Áður en leikurinn hefst er börnunum skipt í litla hópa (2-3 í hóp).

Nauðsynlegt er að velja í hópana eftir getu barnanna, þannig að í hvern hóp veljist börn með mismunandi getu. Best er að velja fyrst þau börn sem geta lesið að einhverju marki og raða síðan í hópana eftir því. Þannig væri tryggt að þau gætu bjargað sér með einfaldan lestur. Kennarinn er til aðstoðar ef upp koma vandamál með lesturinn.

6. Hver nemandi innan hópsins fær hlutverk, einn er með kortið, einn er með svarblaðið og blýantinn og einn les eða skýrir út fyrirmælin (hvað á að gera).

7. Í upphafi er best að lið A fari á stöð nr. 1, lið B á stöð nr. 2 o.s.frv. Síðan halda þau á næstu stöð fyrir ofan, A fer á 2, B á 3 o.s.frv.

8. Liðin eiga að koma til baka þegar þau hafa farið á allar stöðvarnar.

Ekkert gerir til þó að þau ruglist í talningunni svo framarlega að hægt sé að halda áfram með leikinn, eða þau koma eftir ákveðinn tíma, þó að þau hafi ekki náð að klára allar stöðvarnar.

9. Það lið vinnur sem kemur með flestar doppurnar eftir ákveðinn tíma og er með flestar réttar lausnir. Ef ekki er tekinn tími, þá vinnur það lið sem er með flest rétt svör. Gefið er stig fyrir hverja rétta lausn nema á 8. stöð fá þau eitt stig ef þau ná að henda baunapokunum í röð, í fötuna.

Útfærsla:

Þessi ratleikur gengur út á það að kennarinn les stutta sögu, sem gæti tengst bókstafnum sem börnin eru að læra, t.d. R. Síðan er búin til einhver leið (t.d. Rósa með rauðu regnhlífina sem fór í rútu til Röggu Rún á Reynigrundinni) þar sem á hverri stöð er þraut sem börnin verða að leysa til að Rósa komist til Röggu. Leiðin um götur bæjarins er löng og erfið. Á leið sinni þarf Rósa að stikla yfir polla á steinum, hún þarf að skríða undir fallnar trjágreinar og margt fleira (með regnhlífina), sem útleggst með því að skríða undir borð, hoppa á milli steina/mottur, hoppa á öðrum fæti, ganga eins og kónguló, fara í kollhnís o.s.frv.

1. stöð: mynd. Börnin eiga að finna fyrsta stafinn sem myndin er af, t.d. ef myndin er af apa þá er fyrsti stafurinn A o.s.frv. Þau skrifa svarið á svarblaðið.

2. stöð: Kennarinn hefur skrifað stafi á hörð spjöld sem hann síðan klippir niður (býr til púsl). Börnin hjálpast að við að púsla saman stöfunum og skrifa síðan á svarblaðið hvaða stafir það voru.

3. stöð: Perlur í hrúgu. Hver nemandi fær þráð og grófa nál til að þræða perlurnar á band.

Spurningar: Hvað eru perlurnar margar ? Hvað eru margar perlur af sama lit? Nemendur skrifa svörin á svarblaðið.

4. stöð: Tölustafaþraut. Börnin finna út af hverju myndin er með því að fylgja númerunum á myndinni. Myndin er t.d. af húsi. Þá eiga börnin að finna út og skrifa fyrsta stafinn og búa til 3 orð (t.d. hani, hurð, haf) sem byrja á sama staf.

Á svarblaðinu eru 3 orð og vantar fremsta stafinn á þau, dæmi:

-ani, -urð, -af.

5. stöð: Form – mynd af húsi sem myndar tvö form: þríhyrning, sem myndar þak, þrjá ferhyrninga, sem mynda útlínur hússins, glugga og hurð.

Þraut: Teiknið á svarblaðið hvaða form eru í húsinu.

6. stöð: Stafir – (nauðsynlegt er að þessi stöð sé við krítartöflu) ákveðinn stafur er “punktaður ” á svarblaðinu. Fyrst eiga nemendur að bleyta fingur með vatni og skrifa stafinn á töfluna, síðan skrifa þau stafinn beint á línuna á blaðinu.

7. stöð: Blöð og skæri. – Börnin eiga að klippa út mynd sem hefur verið lögð fyrir þau, myndina eiga þau að setja í plastumslagið til að hægt sé að gefa stig fyrir það.

8. stöð: Baunapokakast. – Nemendur fá 3 baunapoka hvert. Þau eiga að reyna að kasta pokunum ofan í ruslafötu og telja hve oft þau hitta og skrifa það á svarblaðið. Þau skiptast á að henda og skrá hjá hvert öðru.

Æfing:

Þar sem þessi leikur er fyrir unga krakka, sem hafa jafnvel aldrei farið í ratleik áður og eru ekki fær um að taka á móti miklum upplýsingum í einu, er gott að búta leikinn niður og æfa hvern þátt fyrir sig. Ég geri ráð fyrir því að fyrst þurfi að kenna þeim að finna stöðvarnar eftir myndum á korti. Í annað skipti væri hægt að nota eingöngu þrautirnar á stöðvunum og fækka þeim til að byrja með. Á þennan hátt er smám saman hægt að leggja leikinn inn þangað til þau skilja út á hvað hann gengur.

Heimild:
Leikur númer: 322
Sendandi: Elísabet Jóhannesdóttir

Deila