Rökleitargátur

Markmið:

Rökhugsun, ímyndunarafl og frjó hugsun, athygli, eftirtekt, einbeiting. Í gátum af þessu tagi þurfa nemendur að velta fyrir sér röklegu samhengi og leita skynsamlegra lausna. Rökleitargátur skerpa athygli, eftirtekt og þjálfa einbeitingu. Lausnaleitin krefst þess að nemendur noti ímyndunarafl sitt og séu frjóir í hugsun. Síðast en ekki síst er skemmtilegt að glíma við gáturnar, þær eru spennandi og erfitt að hætta fyrr en lausnin er fundin.

Aldursmörk:

Frá 8 ára

Gögn:

Gátur (sjá leiklýsingu)

Leiklýsing:

Kennari eða annar stjórnandi segir sögu eins og þessa:

Það er maður að synda í miðju Atlantshafinu. Hann er allsnakinn og það eina sem hann hefur meðferðis er hálf eldspýta. Hvað er aumingja maðurinn að gera þarna?

Með hliðsjón af þessu eiga nemendur að finna skynsamlega skýringu. Þeir mega spyrja stjórnandann spurninga sem hægt er að svara játandi eða neitandi.

Nemendur eiga að velta þessum upplýsingum fyrir sér og fá síðan að spyrja spurninga sem er annað hvort svarað með jái eða neii. Þeir vinna úr þessum upplýsingum og tengja þær saman í leit að heildarlausn.

Lausn:

Maðurinn var ásamt vinum sínum í loftbelg. Loftbelgurinn var að hrapa og reynd u þeir því að létta hann með því að kasta af sér klæðum. Þegar það dugði ekki til drógu þeir um það hver ætti a ð stökkva útbyrðis. Sá sem dró hálfa eldspýtu varð að stökkva í sjóinn.

Útfærsla:

Fleiri gátur:

1. Maður finnst látinn í miðri Saharaeyðimörkinni og við hlið hans liggur ferkantaður kassi. Hvernig stendur á þessu?
2. Maður nokkur er að aka í bíl sínum. Skyndilega stöðvar hann bílinn, tekur byssu úr hanskahólfinu og skýtur sig. Hvað kom eiginlega yfir manninn?
3. Á sviðinu liggja Rómeó og Júlía í andarslitrunum. Allt er á floti í vatni og glerbrot út um allt. Hvað hefur gerst?
4. Maður á heima á 10. hæð í blokk. Þegar hann fer heim til sín, tekur hann lyftuna upp á 4. hæð og labbar leiðina sem eftir er. Hvers vegna?
5. Maður nokkur vaknar sæll og ánægður. Hann fer á fætur, tekur stafinn sinn, fær hjartaáfall og deyr. Hvernig má skýra þetta?
6. Maður nokkur er að ferðast í lest. Hann fer út á einni lestarstöðinni, þar sér hann persónu, gengur rakleitt að henni og kyrkir hana fyrir framan fjölda manns. Lögreglan handtekur hann samstundis og færir hann til yfirheyrslu. Skömmu síðar gengur maðurinn út frjáls allra ferða sinna. Hvernig stendur á þessu?
7. Kona gengur út úr sjúkrahúsi og tekur lest heim til sín. Á miðri leiðinni fær hún hjartaáfall og deyr. Hver er skýringin á þessu?
8. Kona gengur sér til heilsubótar upp á heiði. Þar sér hún tvo steina og gulrót og skilur strax hvað um er að vera. Eruð þið jafn snjöll og konan?
9. Bíll er stöðvaður fyrir utan hótel og um leið veit eigandi bílsins að hann er gjaldþrota. Hvernig veit hann það?

Lausnir:

1. Maðurinn hafði verið á ferð í flugvél. Flugvélin bilaði á miðri leið, þannig að maðurinn neyddist til að stökkva út í fallhlíf. Það vildi ekki betur til en svo að fallhlífin opnaðist ekki.
2. Maðurinn var plötusnúður á útvarpsstöð. Hann tók sér frí úr vinnunni til að drepa konuna sína. Hann ætlaði að nota það sem fjarvistarsönnun að hann hefði verið að spila lög í vinnunni. Hann kveikti á útvarpi í bílnum og heyrði þá að platan sem var spiluð var rispuð. Hann hafði því enga fjarvistarsönnun og ákvað að svipta sig lífi.
3. Rómeó og Júlía voru gullfiskar. Búrið þeirra brotnaði.
4. Maðurinn var lágvaxinn og náði því ekki upp á takkana í lyftunni sem voru fyrir ofan fjórðu hæðina.
5. Maðurinn átti tvíburabróður, þeir voru báðir dvergar. Sá sem dó var minnsti maðurinn í heiminum og var því frægari en bróðir hans. Bróðir hans ætlaði að gera honum grikk og sagaði neðan af stafnum. Maðurinn hélt því að hann væri orðinn stór, fékk hjartaáfall og dó.
6. Persónan sem maðurinn myrti var konan hans. Hún vildi af einhverjum sökum klekkja á manninum sínum og fékk hann því dæmdan fyrir morð á sér. Hann var dæmdur í 10 ára fangelsi á þeim forsendum að fundist hefði einn fingur af konunni hans á heimili þeirra en ekkert hafði spurst til konunnar. Hann hafði nýlega afplánað fangelsisdóminn og var því í raun aðeins að framkvæma verknaðinn sem hann var búinn að sitja inni fyrir.
7. Konan hafði verið blind frá fæðingu. Hún fór á sjúkrahús þar sem einvalalið lækna tókst að færa henni sjónina. Á leiðinni heim fór lestin í gegnum undirgöng og við það hélt konan að hún hefði tapað sjóninni aftur. Við þetta brá henni svo mikið að hún fékk hjartaáfall og dó.
8. Þarna uppi á heiðinni höfðu krakkar verið að leik og búið til snjókarl. En nú var komið sumar og snjórinn bráðnaður og ekkert eftir af snjókarlinum nema augun og nefið.
9. Eigandi bílsins var að spila Matador. Hann lenti á reit mótherja síns sem átti miklar eignir.

Heimild:

Margar rökleitargátur eiga rætur að rekja til Paul Sloane sem skrifað hefur fjölda bóka um þessar þrautir. Á heimasíðu hans eru bækur hans kynntar og sýnishorn gefin af gátum hans. Slóðin er:

http://dspace.dial.pipex.com/sloane/

Leikur númer: 193
Sendandi: Edda Óskarsdóttir, Jóhanna Pálsdóttir, Sigrún Ingimarsdóttir

Deila