Söguaðferð með leikrænni tjáningu

Markmið:

– Nemendur læra að virða aðra – Nemendur læra að koma fram og tjá sig með leikrænni tjáningu – Nemendur læra að hlusta vel

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

Pappadiskar og gott ævintýri.

Leiklýsing:

Kennari segir sögu t.d. um dýrin sem fóru úr Norðurskógi yfir í Suðurskóg og skildu gamla skjaldböku eftir eina í Norðurskógi. Hún var alltaf að tala illa um alla og enginn þoldi það lengur. Nemendur eiga að hlusta vel og kennari reynir eftir bestu getu að fá þá til að lifa sig eins mikið inn í söguna og hægt er.

Hægt er að styðjast við hvaða sögu eða ævintýri sem er. Mikilvægt er að hafa í huga að allir nemendur fái eitthvert ákveðið hlutverk í sögunni. Eftir sögustundina fær hver og einn nemandi pappadisk. Þeir klippa út augu á þá og teikna sitt dýr eða hlut. Ef t.d. einhver nemandi er ljón í sögunni þá teiknar hann ljónaandlit á pappadiskinn sinn (eins má setja á hann makka). Eftir það leika nemendur söguna frá upphafi til enda. Ef um er að ræða lítil börn þá getur kennari lesið söguna með þeim eða hjálpað þeim með það sem þau eiga að segja.

Með þessum leik getur skapast skemmtilegt andrúmsloft og tilvalið er að grípa í hann í lok dags svo að nemendur fari heim með bros á vör.

Útfærsla:

Leikinn má útfæra með ýmsum hætti.

Heimild:
Leikur númer: 254
Sendandi: Ástrós Guðmundsdóttir, Berglind Þórðardóttir og Tinna Ösp Káradóttir

Deila