Stöðvaratleikur í landafræði Norðurlanda

Markmið:

Fjölbreytni, virkja nemendur, samvinna og félagsandi, vekja áhuga, kortalestur, landafræði Norðurlanda.

Aldursmörk:

Frá 10 ára

Gögn:

Sjá lýsingu.

Leiklýsing:

Undirbúningur:

1 Veldu svæði sem þú hyggst nota.
2 Útvegaðu kort (eða loftmynd) af svæðinu og ljósritaðu það á blað í stærðinni A4. Besti mælikvarðinn er 1:2000-1:15000.
3 Það sem þú þarft að hafa með þér er: Kortið, verkefni í plastmöppum af stærðinni A5 (helst með götum til þess að hægt sé að binda þau á stöðv- arnar), band, tússpenni og fánar eða eitthvað annað til að merkja stöðvarnar.
4 Ákveddu hve margar stöðvar þú ætlar að hafa og hversu langt á að vera á milli þeirra. Algengast er að hafa 8-12 stöðvar og u.þ.b. 100-250 m á milli þeirra.
5 Þegar stöðvarnar hafa verið merktar inn á kortið er það ljósritað handa nemendum.
6 Áður en leikurinn hefst er börnunum skipt í lið. Liðin velja sér hópstjóra sem fær plastmöppu með kortinu ásamt blýanti og auðu blaði til að svara spurningunum á.
Leikurinn:

7 Í upphafi er ágætt að láta lið nr. 1 fara fyrst á stöð nr. 1, lið nr. 2 fara á stöð nr. 2 o. s. frv.
8 Liðin eru látin koma til baka þegar þau hafa fundið allar stöðvarnar eða eftir ákveðinn tíma.
9 Mat á úrlausnum getur farið fram í umræðutímum ef um opnar spurningar er að ræða. Ef eingöngu er um lokaðar spurningar að ræða er ákv. stigafjöldi fyrir hverja spurningu látinn ráða því hvaða lið fær flest stig í ratleiknum.

Útfærsla:

Hægt er að setja ofangreindan leik upp í kennslustofunni, í salarkynnum skólans, á bókasafni eða bara alls staðar þar sem því verður við komið. Munið að uppflettirit geta komið að góðu gagni.

SPURNINGAR ÚR LANDAFRÆÐI NORÐURLANDANNA

Mælt er með fjölbreyttum spurningum, bæði opnum og lokuðum, spurningum úr kennslubókum og þeim sem byggjast á almennri þekkingu:
Hver eru Norðurlöndin? Hvað heita höfuðborgirnar?
Hvaða Norðurland heillar ykkur mest? Af hverju? Rökstyðjið.
Hvaða mál eru töluð á Norðurlöndunum? Hvaða trúarbrögð eru ríkjandi?
Getið þið nefnt einhverja þekkta einstaklinga frá Svíþjóð (t.d. skáld, leikara, tónlistar-, stjórnmála- eða íþróttamenn o. s. frv.)?
Teiknið Norðurlöndin fríhendis.
Hvaða Norðurlönd hafa þingbundna konungsstjórn og hver eru lýðveldi? Hvað heitir æðsti maður lýðveldis?
Hvaða lönd detta ykkur í hug þegar þið heyrið; ABBA, Lillehammer, Sívali turninn, Þúsund vatna landið, Astrid Lindgren, selveiðar, sauna,Smugan, grindhvalir, Litla hafmeyjan, olíuborpallar á Norðursjó?
Hvers vegna teljið þið nauðsynlegt fyrir okkur að læra eitt Norðurlandamál? Rökstyðjið. Vilduð þið læra eitthvert annað Norðurlandamál en dönsku? Af hverju?
Getið þið nefnt dæmi um samvinnu milli Norðurlandanna?
Hvers konar loftslag er ríkjandi í Noregi?
Hvað vitið þið um Finnland?
Hver er Gro Harlem Brundtland?

Heimild:

Stolið og stælt úr Það er leikur að læra eftir Anton Bjarnason.

Leikur númer: 324
Sendandi: Guðríður Ólafsdóttir

Deila