Þrautabrautin

Markmið:

Að auka tilfinningu fyrir hljóðum í orðum (hér forhljóðum). Lestur.

Aldursmörk:

Frá 7 ára

Gögn:

Útklipptir fætur úr pappír sem orð hafa verið skrifuð á.

Leiklýsing:

Á gólfið eru settir litlir útklipptir fætur sem orð hafa verið skrifuð á (mega líka vera venjuleg blöð, en er e.t.v. áhugaverðara ef það eru fætur). Þeim er dreift, þó þannig að það myndist nokkurs konar braut yfir gólfið í stofunni.

Breiddin er alls staðar tveir til þrír fætur.

Kennarinn segir eitthvert hljóð. Ef hægt er að bæta hljóðinu framan við eitthvert þeirra orða sem hægt væri að stíga á þannig að út komi gott og gilt orð, má nemandinn stíga áfram. Þetta heldur síðan áfram koll af kolli þangað til komið er yfir. Ef nemandinn stígur á orð sem ekki er gilt með þessu hljóði verður hann að stíga til baka og fóturinn er fjarlægður. Enn er þó möguleiki að komast yfir þar sem það eru e.t.v. 2 –3 aðrir fætur í boði án þess að brautin verði ófær.

Hægt að hafa fleiri en eina braut í stofunni. Einhverjir geta tekið að sér að vera „dómarar”. Síðan er skipt um hlutverk. Það fer eftir hópnum hverju sinni hvort hægt er að láta krakkana vera í dómarahlutverki.

Útfærsla:

Hægt að nota leikinn til að æfa nemendur í að greina milli no., so. og lo. eða orða sem hægt er að búa til samsett orð úr, o.s.frv.

Hægt er að fá nemendur til að hreyfa sig um leið og þeir reyna á hugann. 🙂

Heimild:

Sendandi er höfundur leiksins.

Leikur númer: 181
Sendandi: Laufey Herdís Guðjónsdóttir

Deila