Leikjavefurinn er samvinnu- og þróunarverkefni kennara og kennaraefna. Markmið hans er að safna góðum leikjum til að nota í skólastarfi og kynna þá sem víðast með aðgengilegum hætti.

Leikjunum er safnað af kennurum og kennaraefnum í sjálfboðavinnu. Umsjónar- og ábyrgðarmaður verkefnisins er Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands. Bakhjarl verkefnisins og aðsetur er Skólastofan slf – rannsóknir og ráðgjöf. Flestir leikirnir eru afrakstur námskeiðsins Leikir í frístunda- og skólastarfi sem er valnámskeið  á tómstundabraut á Menntavísindasviði, en er opið nemendum á öllum námsbrautum.

Á Leikjavefnum eru nú um 400 leikir og leikjaafbrigði, ásamt ýmsu öðru efni, m.a. ábendingum um aðra áhugaverða leikjavefi af ýmsu tagi.

Leitast hefur verið við að hafa leiklýsingar sem skýrastar; talin eru þau gögn sem þarfnast vegna leiksins, markmiðum hans lýst, framkvæmd og möguleikum á útfærslu. Þá er getið heimilda um leikinn séu þær kunnar.

Rétt er að taka skýrt fram að að einhver höfundarréttarleg álitamál kunna að fylgja þessari útgáfu. Ekki hefur tekist að ganga nægilega stranglega eftir því að skrásetjarar leikjanna gerðu grein fyrir heimildum sínum. Það er einnig ljóst að margir höfundar leikjabóka, sem skrásetjarar kunna að hafa sótt í, hafa heldur ekki hirt um að gera grein fyrir heimildum sínum. Því verður litið svo á að hefðarréttur sé fyrir því að ekki sé hægt að eigna sér tiltekna leiki eða útfærslu þeirra, nema þegar um er að ræða sérhönnuð útgefin gögn, eða annað efni sem augljóslega fellur undir lög um höfundarétt. Margir þeir leikir sem hér er lýst hljóta að teljast almenningseign. Stefnt er að því að í framtíðinni verði strangar eftir því gengið að leikjasafnarar geri, eftir því sem hægt er, grein fyrir heimildum sínum, en það er fyrirfram ljóst að aldrei verður hægt að gera það með þeim hætti að takast megi að fylla í öll göt. Mikilvægt er að þeir sem hugsanlega telja brotið á rétti sínum í þessari útgáfu láti undirritaðan vita svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.

Aðgangur að Leikjavefnum er öllum heimill.

Vinsamlegast hafið í huga að Leikjavefurinn er í stöðugri mótun. Athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar.

Ingvar Sigurgeirsson