Varúlfur

Markmið:

Einbeiting, rökhugsun, samvinna og hafa gaman.

Aldursmörk:

Frá 10 ára

Gögn:

Einn stóll á mann.
Spil, t.d. 16 spil ef þáttakendur eru 20. Þá eru 16 spil með mynd af óbreyttum bæjarbúum og fjögur spil með mynd af varúlfi.

Leiklýsing:

Um nokkurt skeið hafa bæjarbúar þurft að glíma það vandamál að varúlfar fara á stjá á næturnar og drepa saklausa bæjarbúa. Nú þurfa bæjarbúar að sameinast um að finna hverjir það eru sem breytast í varúlfa áður en allir falla í valinn og bærinn fellur í skaut varúlfanna.

Allir nema sögumaðurinn fá sér sæti og verður það að vera þannig að allir sjá hvern annan vel. Sögumaðurinn úthlutar einu spili á mann og er alveg bannað að kíkja eða segja frá!

Sögumaðurinn hefur söguna: Nú fara allir bæjarbúar _____ (býr til nafn á bænum) að sofa og þá loka allir augunum. Næst segir hann: Nú fara varúlfarnir á stjá. Þá mega aðeins þeir sem fengu úthlutað varúlfaspili opna augun og sjá hver annan og velja með ábendingum í sameiningu hverja bæjarbúanna þeir ætla að drepa. Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin segir sögumaður: Nú sofna varúlfar. Stuttu seinna segir hann: Nú vakna bæjarbúar allir … nema einn en það er hún _____ sem varúlfarnir hafa náð um nóttina. Þá geta bæjarbúar farið að ákæra þann sem þeir gruna helst, en þurfa þó stuðning við hverja ákæru.

Þegar ákærur hafa verið staðfestar hafa þeir sem ákærðir voru kost á að verja sig en eftir það kjósa bæjarbúar með lýðræðislegri kosningu (rétta upp hönd) hvern þeir ætla að sakfella. Þá kemur í ljós hvort þeir náðu varúlfi eða saklausum bæjarbúa.

Ef þú ert bæjarbúi er markmið þitt að komast að því hver er varúlfur og síðan að sannfæra hina bæjarbúana að kjósa þá út. Einnig þarftu að passa þig að vera ekki kosinn út í misgripum fyrir varúlf. Markmið þitt, ef þú ert varúlfur, er að að éta bæjarbúa á nóttunni og útrýma þeim einum á fætur öðrum þar til aðeins varúlfar eru eftir. Á daginn reynirðu eftir fremsta megni að spila þig sem einn af bæjarbúum svo að þeir nái þér ekki.

Útfærsla:

Þetta er einfaldasta útgáfa leiksins en skemmtilegra er að bæta við spilum með ýmsum bæjarbúum sem hafa sérstaka hæfileika.

Dæmi:

Lítil stelpa sem má kíkja eins oft og hún vill því hún getur ekki sofið af hræðslu við varúlfana.

Alsjáandi, sem má vakna einusinni á nóttu (oftast látin vakna fyrst) og benda á einn sem hann eða hún vill fá að vita hvort sé vondur eða góður.

Sögumaður svarar með þumli upp eða þumll niður.

Ástarpungur, sem fær að velja sér einn í byrjun leiks sem deyr með honum ef hann er drepinn (vonandi er það svo varúlfur!)

Veiðimaður sem skýtur einu voðaskoti þegar hann er drepinn og fær þannig að velja sér einhvern einn sem fer með honum (vonandi valdi hann vel!) Munurinn á veiðimanni og ástarpungi er að veiðimaður fær að velja þann sem fer með honum þegar hann er drepinn, ekki í byrjun leiks eins og ástarpungur.

Norn. Nornin fær að þyrma einu lífi. Hún fær að vakna þegar varúlfarnir eru búnir að fara á stjá og farnir aftur að sofa og sjá hver var drepinn. Ef hún vill bjarga honum setur hún þumalinn upp, ef ekki setur hún hann niður.

Hægt er að hafa ýmsar útfærslur á karakterum í þessum leik og endalaust er hægt að bæta við og breyta.

Heimild:

Sendandi byggir þessa lýsingu m.a. á erlendu spili, Die Werwölfe vom Düsterwald, sjá t.d. á þessari slóð:
http://www.funagain.com/control/product/~product_id=014528

Leikur númer: 115
Sendandi: Áslaug Einarsdóttir

Deila