Villuleikur

Markmið:

Að þjálfa framkomu og hlustun. Auka þekkingu.

Aldursmörk:

Frá 9 ára

Gögn:

Kennarinn útbýr spjöld (a.m.k. jafn mörg nemendum). Á hverju spjaldi er stuttur texti, tvær til þrjár línur. Textinn má vera frumsaminn en einnig má taka hann úr hverju því námsefni sem kennarinn vill að nemendur fræðist um hverju sinni. Í texta hvers spjalds kemur hann fyrir einni villu sem má vera af hvaða tagi sem er, t.d. staðreyndavilla eða málvilla. Mikilvægt er að villan sé hæfilega augljós fyrir þann aldur sem leikurinn er ætlaður þannig að nemendur eigi auðvelt með að finna hana og leiðrétta.

Leiklýsing:

Spjöldin eru staðsett á kennaraborði eða í ræðupúlti (í réttri röð ef um sundurklipptan texta er að ræða), gjarnan í kassa eða gormabundin. Einn nemandi kemur upp og les textann af fyrsta spjaldinu. Nemandinn sem situr næst við hliðina á honum á síðan að finna villuna í textanum og leiðrétta ef hann getur. Ef honum tekst það ekki fá hinir í bekknum að spreyta sig. Þegar villan hefur verið leiðrétt sest sá sem las í sætið sitt aftur og næsti nemandi kemur upp og les textann af næsta spjaldi, og þannig koll af koll þar til allir hafi fengið að spreyta sig á lestrinum.

Útfærsla:

Leikinn er hægt að útfæra til kennslu í flestum fögum, t.d. í samfélagsfræði. Hægt er að nota texta eins og segir í gögnum hér að ofan og koma fyrir einni staðreyndavillu.

Dæmi úr bókinni Land og líf sem kennd er í 5. bekk, úr kaflanum “Í sveitinni”:

Íslendingar bjuggu nær allir í sveit fram eftir öldum.
Í um þúsund ár lifði fólkið í landinu nær eingöngu á KÓK OG PRINS PÓLÓ.
Rétt: BÚSKAP OG VEIÐUM.

Gott er að hafa villuna afmarkaða með undirstrikun eða öðrum hætti og hafa síðan rétt svar fyrir neðan. Þannig gengur leikurinn auðveldlega fyrir sig og krefst ekki mikillar stjórnunar af kennaranum. Þá má einnig skipta bekknum í tvennt og hafa spurningakeppni. Þar með er nemandinn virkjaður sem spyrill en kennarinn getur þá verið dómarinn í keppninni og á því auðvelt með að hafa stjórn á hlutum.

Heimild:
Leikur númer: 302
Sendandi: Þór Vilmundarson og Stefán Arinbjarnarson

Deila