Zip, Zap, Boing!

Markmið:

Skerpa á einbeitingu og styðja við hópefli.

Aldursmörk:

Frá 8 ára

Gögn:

Engin

Leiklýsing:

Þátttakendur standa í hring. Ákveðið er hver skal hefja leikinn og kemur sá af stað hreyfingu með hendinni til hægri eða vinstri og lætur orðið „ZIP“ fylgja. Sé Zip-ið sent til hægri skal nota vinstri hönd og öfugt. Sá sem tekur við hreyfingunni sendir hana áfram í sömu átt og Zip-ið ferðast þannig allan hringinn. Zip-ið þarf þó ekki endilega að vera sent í sömu átt. Ef þátttakandi fær Zip-ið sent til sín frá einstaklingnum við hlið sér getur hann snúið sér að viðkomandi og sagt hátt og snjallt „BOING“ sem verður til þess að zip-ið snýr við og þarf að ganga í hina áttina. Þá er einnig hægt að senda Zip-ið til hvers sem er í hringnum. Sá sem á leik getur tekið skref inn í hringinn, náð augnsambandi við einhvern annan, beint höndunum að honum, klappað og sagt „ZAP“. Þá er sá kominn með Zip-ið til sín og sendir það áfram til hægri eða vinstri. Takmarkið er að senda Zip-ið eins hratt og hægt er á milli þátttakanda. Gæta verður þess að segja ávallt viðeigandi orð og gera rétta hreyfingu. Ef einhver ruglast þarf að hefja leikinn að nýju.

Útfærsla:

Þegar þátttakendur eru orðnir slungnir og leikurinn gengur vel er tilvalið að flækja hann og bæta við orðum og hreyfingum. Þessar hreyfingar geta verið af ýmsu tagi en höfuðáherslan ætti að vera að þær séu skemmtilegar í framkvæmd.

Dæmi um orð og hreyfingar:

Búmerang!: Sá sem á leik snýr sér til hægri eða vinstri, lyftir upp hendinni á sama tíma og hann kallar „Bjúgverpill“ áður en hann kastar ímynduðum búmerang. Þátttakendur þurfa þá allir að beygja sig, koll af kolli, uns bjúgverpillin er kominn aftur til þess sem kastaði. Sá á þá að gera að nýju.

Keilukúla: Sá sem á leik snýr sér til hægri eða vinstri, lyftir upp hendinni á sama tíma og hann kallar „Keilukúla“ áður en hann kastar ímyndaðri keilukúlu. Þátttakendur þurfa nú allir að hoppa yfir kúluna, koll af kolli, uns kúlan er komin aftur til þess sem kastaði. Sá á þá að gera að nýju.

Hestur: Sá sem á leik kallar hátt og snjallt „Hestur“. Þá setjast allir á bak ímynduðum hesti og ríða af stað og finna sér nýjan stað í hringnum. Þegar allir hafa tekið sér stöðu hefur sá leik sem kallaði.

Það er einnig mikil skemmtun fólgin í því að láta þátttakendur búa til sínar eigin hreyfingar og orð.

Ef vilji er fyrir hendi getur þetta verið keppnisleikur. Ef einhver þátttakandi ruglast á orði eða hreyfingu er hann úr leik. Leiknum lýkur þegar að aðeins tveir eru eftir og eru þeir þá sigurvegarar.

Heimild:

Sendandi hefur kunnað leikinn frá barnæsku.

Hér er myndskeið sem sýnir dæmi um útfærslu á leiknum.

Leikur númer: 362
Sendandi: Hákon Sæberg

Deila